Eðlilegt að vera langeygir eftir friði

Helgi Grímsson.
Helgi Grímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir það vonbrigði að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir raka í Fossvogsskóla en vonar að fyrirhugaðar endurbætur muni duga næstu áratugina.

Hann segir húsnæðið 50 ára gamalt og að það samræmist ekki núgildandi viðmiðum varðandi nýbyggingar, meðal annars þegar kemur að loftgæðum. „Það er góðs viti fyrir börn og starfsfólk í Fossvogsskóla að þeim séu skapaðar góðar aðstæður til náms og starfa komandi áratugi," segir Helgi Grímsson.

Útikennsla við Fossvogsskóla í mars.
Útikennsla við Fossvogsskóla í mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýir ráðgjafar með önnur gleraugu

Í framhaldi af úttekt Eflu á húsnæðinu vegna rakavandamála verður framkvæmdaáætlun unnin og vonast Helgi til að hún skili árangri. Þar af leiðandi er verkáætlun ekki tilbúin og því óljóst hvað framkvæmdirnar sem þarf að inna að hendi við skólann munu kosta.

Ljóst er að mikið fjármagn og mikill tími hafa farið í endurbætur á Fossvogsskóla. Þessar aðferðir hafa ekki dugað til og í úttekt Eflu kemur meðal annars fram: „Rakaummerki, rakaskemmdir og hækkaður raki er til staðar í byggingum. Eldri viðgerðir hafa ekki reynst fullnægjandi í öllum tilfellum og liggur fyrir að rakaskemmd byggingarefni eða raka má enn finna á einhverjum viðgerðum svæðum.“

Spurður út í þetta segir Helgi að ákveðið hafi verið að fá inn nýja ráðgjafa til verksins sem beiti öðrum gleraugum og aðferðum og þess vegna hafi aðrir hlutir verið skoðaðir. Hann vill annars ekki tjá sig um atriði er varða byggingatækni.

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekið langan tíma

Formaður foreldrafélags Fossvogsskóla sagði í samtali við mbl.is að traust foreldra og skólasamfélagsins í garð borgarinnar væri í lágmarki vegna málsins. Spurður hvort hann hafi orðið var við þetta litla traust segir Helgi að ferlið hafi vissulega tekið langan tíma. Því miður hafi hlutirnir ekki verið í lagi þegar þeir áttu að vera komnir í lag. „Það er eðlilegt að menn séu langeygir eftir því að það sé kominn friður og menn geti einbeitt sér að skólastarfinu, þar er það sem bæði starfsfólk, foreldrar og börnin vilja að sjálfsögðu,“ segir hann.

350 í byggingu fyrir 170-200

Nemendur Fossvogsskóla verða í Korpuskóla allt næsta skólaár vegna stöðunnar sem er uppi. Þeir hafa einmitt stundað nám sitt þar að undanförnu. Helgi segir að bekkurinn sé mjög þröngt setinn í skólanum og starfsmenn og stjórnendur séu að skoða þær lausnir sem eru í boði. Tíminn í vor og sumar verði notaður til að þess. „Korpuskóli er hannaður fyrir 170 til 200 börn en það eru um 350 í byggingunni. Það er mjög þétt setið og þetta er eðlilega eitthvað sem við tökum tillit til þegar þetta snýst um svona langan tíma sem framkvæmdir taka,“ greinir hann frá. 

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra við vinnslu fréttarinnar. 

Korpuskóli hýsir starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin á …
Korpuskóli hýsir starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin á mygluvandræðum í Fossvogsskóla. Ljósmynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert