Kópavogsbær fær viðurkenningu fyrir innleiðingu Barnasáttmála

Á myndinni eru frá fremri röð frá vinstri: Ásmundur Einar …
Á myndinni eru frá fremri röð frá vinstri: Ásmundur Einar Daðason, Anna Elísabet Ólafsdóttir, Eiríkur Örn Beck, Ingunn Sif Isorena Þórðardóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Birna Þórarinsdóttir, Karen E. Halldórsdóttir, Bergljót Kristinsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Guðmundur G. Geirdal og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúar í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Kópavogsbær fékk í dag afhenta viðurkenningu í tilefni þess að bærinn hefur innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Með viðurkenningunni er Kópavogur kominn í hóp barnvænna sveitarfélaga, en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. 

Þau Birna Þórðardóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra afhentu viðurkenninguna og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Anna Elísabet Ólafsdóttir, verkefnastjóri innleiðingarinnar, Ingunn Sif Isorena Þórðardóttir og Eiríkur Örn Beck, sem setið hafa í stýrihóp innleiðingarinnar hjá Kópavogsbæ, tóku við henni fyrir hönd bæjarins.

Unnið hefur verið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018 en bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í maí það ár að innleiða Barnasáttmálann hjá bænum.

Kópavogur er ann að sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag. 

„Það er mikið ánægjuefni að fagna uppskeru þrotlausrar vinnu síðastliðinna þriggja ára við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi, en Kópavogur er meðal fyrstu sveitarfélaganna til að hefja þessa vegferð hér á landi og hefur rutt brautina með metnaðarfullum hætti fyrir þau fjölmörgu sveitarfélög sem nú feta í þau fótspor. Við erum bara rétt að byrja og höfum sett okkur það markmið að að minnsta kosti 80% barna á Íslandi búi í sveitarfélagi sem vinnur eftir hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga fyrir árslok 2024,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra við tilefnið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert