Erlendir ferðamenn eru farnir að sjást á ný á helstu ferðamannastöðum landsins, þar á meðal á Geysissvæðinu þar sem Strokkur gaus að vanda í gær með reglubundnum hætti.
Starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja segjast vera bjartsýnir á sumarið og fjármálaráðuneytið sagði í gær, að flugferðum til og frá landinu og ferðamönnum sem hingað koma hafi fjölgað hratt í maímánuði og líkur séu á að fjölgunin verði áfram mikil á næstu vikum sé tekið mið af flugframboði og áætlunum um nýtingu hótela.
Þá séu vísbendingar um að erlendir ferðamenn á Íslandi verji nú talsvert meira fé en var fyrir heimsfaraldur kórónuveiru og erlend kortavelta hafi aukist hraðar en fjöldi ferðamanna, að því er fram kemur í umfjöllun um ferðamennskuna í Morgunblaðinu í dag.