Lægðir þjarma að okkur úr suðvestri

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er hvassri suðaustanátt, 13-18 m/s, við gosstöðvarnar í dag og á morgun. Slíkur vindur getur verið varasamur fyrir ferðalanga.

Áfram er hætta á gróðureldum allvíða á landinu sökum þurrka en í lok vikunnar er útlit fyrir sunnanátt með rigningu sunnan- og vestanlands.

„Hæð norðaustur af landinu stjórnar enn þá veðrinu hjá okkur og víða er vindur fremur hægur og léttskýjað en lægðir þjarma að okkur úr suðvestri og valda því að nokkur vindstrengur er með suðurströndinni, 13-20 m/s í kvöld og á morgun.

Áfram er hlýtt og líklegt að hámarkshiti dagsins verði í kringum 18 stig. Lítils háttar rigning fylgir vindinum sunnanlands en um helgina er útlit fyrir að hæðin gefi eftir og úrkomuskil nái inn á land með vætu sunnan og vestan til á laugardaginn og úrkomumeira á sunnudag. Það er því von til þess að jarðvegur blotni og gróður taki við sér og dragi úr eldhættu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Suðaustan 8-13 m/s um suðvestanvert landið, skýjað með köflum. Hægari breytileg átt og yfirleitt léttskýjað annars staðar. Gengur í austan 13-20 m/s og með lítils háttar vætu við suðurströndina síðdegis.

Suðaustan 8-15 á morgun en 15-20 sunnanlands. Rigning með köflum en bjartviðri um norðanvert landið.
Hiti 10 til 18 stig yfir daginn, hlýjast inn til landsins en heldur svalara austast.

Á föstudag:

Suðaustan 13-20 m/s, hvassast með suðurströndinni og dálítil væta um sunnanvert landið. Hiti 7 til 12 stig. Heldur hægari vindur og bjart veður norðanlands með hita að 18 stigum.

Á laugardag:
Sunnan 8-13 m/s og rigning með köflum en yfirleitt þurrt norðan til á landinu. Hiti 6 til 11 stig en að 16 stigum fyrir norðan. Suðaustan 13-18 m/s suðvestanlands um kvöldið.

Á sunnudag:
Suðvestan 8-15 m/s, skúrir en lengst af rigning suðaustanlands. Bjartviðri norðaustan til á landinu. Hiti 5 til 12 stig.

Á mánudag:
Suðlæg átt og rigning með köflum en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:
Suðlæg eða breytileg átt og skúrir í flestum landshlutum. Hiti víða 7 til 12 stig.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir austan- og norðaustanátt með skúrum um allt land.

Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert