Margs konar hátíðir í boði um allt land

Landsmenn geta valið úr fjölbreyttu úrvali hátíða í sumar ef …
Landsmenn geta valið úr fjölbreyttu úrvali hátíða í sumar ef samkomutakmarkanir leyfa. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Margs konar hátíðir boða landsmönnum að sumarið sé komið. Flestum hátíðum var frestað á síðasta ári en nú er útlit fyrir að dagskráin verði þétt og spennandi þetta sumarið.

Hér eru nefndar helstu hátíðir sem haldnar eru árlega, en sá fyrirvari fylgir að óvíst verður með stöðu samkomutakmarkana í sumar.

Bíladagar verða haldnir á Akureyri 17. til 19. júní þar sem keppt verður í kappakstri og bílar sýndir. Í júlí verður Goslokahátíð haldin dagana 1. til 4. júlí í Vestmannaeyjum. Hátíðin hefst með tónleikum í Eldheimum þar sem Svanhildur Jakobsdóttir og Ómar Ragnarsson munu koma fram. Sömu helgi verður fjölskylduhátíðin Írskir dagar haldin á Akranesi. Þá verður Þjóðlagahátíð á Siglufirði haldin 7. til 11. júlí þar sem boðið verður upp á dansa, námskeið og tónleika. Fjölskyldu- og tónlistarhátíðin Kótelettan á Selfossi verður haldin 9. til 11. júlí. Listahátíðin LungA verður haldin á Seyðisfirði 14. til 17. júlí með listasmiðjum, tónleikum o.fl. Franskir dagar á Fáskrúðsfirði halda upp á 25 ára afmæli og sú bæjarhátíð verður haldin 22. til 25. júlí. Tónlistarhátíðin Bræðslan verður svo einnig haldin á Borgarfirði eystri 24. júlí, en dagana þar á undan verða í boði fleiri tónleikar.

Mikil aðsókn á Þjóðhátíð

Verslunarmannahelgin er 31. júlí til 2. ágúst þetta árið og hafa landsmenn úr þó nokkrum hátíðum að velja þá. Efst á lista er Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en miðasala á hana hófst í gær og lá miðasalan strax niðri vegna mikillar aðsóknar. Innipúkinn verður einnig haldinn sömu helgi og verður dagskráin tilkynnt í næstu viku samkvæmt Steinþóri Helga Arnsteinssyni, sem er einn af skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar. Þá verður um verslunarmannahelgina Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Selfossi þar sem keppt verður í ýmsum greinum. Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin á sama tíma á Akureyri en samhliða henni verða Íslensku sumarleikarnir haldnir þar sem m.a. fer fram Kirkjutröppuhlaupið við Akureyrarkirkju.

Gleðigangan snýr aftur

The Color Run verður haldið á Akureyri 1. ágúst og í Reykjavík 28. ágúst, en nú þegar er hægt að kaupa miða í hlaupið. Hinsegin dagar í Reykjavík verða svo haldnir 3. til 8. ágúst og verður Gleðigangan á meðal viðburða. Þá verður Víkingahátíðin í Hafnarfirði haldin helgina 13. til 15. ágúst á Víðistaðatúni samkvæmt Hafsteini Kúld Péturssyni, formanni Rimmugýgjar, sem heldur hátíðina. Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar verður haldin í Hveragerði sömu helgi. Þann 21. ágúst verður Menningarnótt fagnað í Reykjavík og síðustu helgina í ágúst verður svo bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima. Vert er að nefna nokkrar hátíðir sem hafa verið blásnar af fram á næsta ár en það eru Secret Solstice, Eistnaflug, Neistaflug og Fiskidagurinn mikli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert