Nota sama bóluefni sé þess kostur

AFP

Mælt er með því að fólk sem hefur verið bólusett með AztraZeneca-bóluefninu við fyrri bólusetningu fái sama bóluefni við síðari bólusetningu þar sem blóðsegavandamál eru fátíðari við seinni bólusetningu en þá fyrri og eins virðist fólk frekar finna fyrir aukaverkunum, það er fái hita og beinverki, ef það fær annað bóluefni við síðari bólusetningu. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Mikið hefur verið spurt út í blöndun bóluefna segir Þórólfur og vísar þar til þess að konum yngri en 55 ára og körlum yngri en fertugum hefur verið boðið upp á að fá annað bóluefni, annaðhvort Pfizer eða Moderna, við seinni bólusetningu vegna mögulegra blóðsega- eða blæðingarvandamála.

AFP

Samkvæmt upplýsingum Lyfjastofnunar Evrópu hafa alvarleg blóðsega- og blæðingarvandamál sést eftir bólusetningu með bóluefni Astra-Zeneca hjá u.þ.b. einum af 300.000 bólusettum, einkum konum yngri en 55 ára. Í Bretlandi er talað um að þessar aukaverkanir sjáist hins vegar hjá sex af milljón bólusettum.

„Virknin virðist vera í góðu lagi,“ að sögn Þórólfs þegar notað er annað bóluefni við seinni bólusetningu en þá fyrri. Sama á við um ónæmissvörun. Eins hafa bráðabirgðaniðurstöður rannsókna sýnt að blóðsegavandamál eru fátíðari eftir bólusetningu tvö, svo sem með bólusetningu með AstraZeneca segir Þórólfur. Þess vegna ætti sú meginregla að gilda almennt að nota sama bóluefni við báðar bólusetningar sé þess nokkur kostur segir hann. 

Bólusetningar hafa gengið vel að undanförnu að sögn sóttvarnalæknis þrátt fyrir að minna hafi borist af bóluefni þessa vikuna og því minna bólusett núna en undanfarnar vikur. Í næstu viku er útlit fyrir að hægt verði að gefa í varðandi bólusetningar.

Sóttvarnalæknir fjallaði um stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, B.1.617, sem fyrst greindist á Indlandi. Líkt og fram kom í máli Þórólfs á fundinum hefur afbrigðið ekki enn greinst innanlands en í fjögur skipti á landamærunum. Þetta afbrigði virðist vera meira smitandi en það breska en alvarleg veikindi eru ekki algengari. Bóluefnin sem notuð eru hér á landi virðast virka vel á þetta afbrigði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka