Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti yfir áhyggjum af aukinni aðsókn hælisleitenda til Íslands og spurði fjármálaráðherra hvort hann hefði hugað að því að fá lagaheimild til þess að standa undir þeim kostnaði sem aukinn fjöldi flóttamanna kynni að hafa í för með sér í óundirbúnum fyrirspurnartíma Alþingis í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagðist sammála því að kerfið á Íslandi sé nú þegar að kosta óheyrilega mikla peninga. Hann sagði kerfið innihalda fjölda kæruleiða og annara úrræða sem væru til þess fallin að tefja afgreiðslu mála hælisleitenda óhóflega lengi.
Bjarni sagði ráðlegt að einfalda kerfið verulega svo hægt væri að afgreiða einfaldari mál fljótt og örugglega. Slíkt myndi lækka kostnað verulega og einfalda alla umgjörð.
Hann árétti þó að fjöldi mála væru þess eðlis að nákvæmni og aðgæslu þyrfti að gæta við afgreiðslu þeirra. Þá þurfi að fara fram umræða um við hvaða aðstæður þeir einstaklingar eigi að búa við.
„Við getum ekki verið með fólk hérna sem ráfar um götunar tekjulaust á meðan það bíður úrlausnar sinna mála.“ sagði Bjarni á þingfundi í dag.
Bjarni sagði það vissulega óheppilegt að Ísland væri með lægstu þröskuldina til þess að umsækjendur fái mál sín tekin til athugunar og þar af leiðandi fá stuðning á meðan málarekstri stendur. Það gæti verið vegna þeirrar séríslensku leiðar sem farið er í þessum málum. Að lokum benti Bjarni á óafgreitt frumvarp í dómsmálaráðuneytinu sem myndi hraða málsmeðferð.