Ósammála um það hver hafnaði hverju

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, segir ekki rétt að hann hafi hafnað því að taka 2. sæti á lista flokksins þegar uppstillingarnefnd bauð honum það. Hann hafi hins vegar viljað afsökunarbeiðni frá uppstillingarnefnd, sem setti hann upphaflega í neðsta sæti listans, áður en hann gæti þegið annað sætið.

Benedikt hafði óskað eftir forystusæti á lista Viðreisnar í einhverju kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu fyrir alþingiskosningar í haust. Fyrr í vikunni greindi hann frá því að honum hefði verið boðið neðsta sæti listans, og ætlaði ekki að þiggja það.

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, að Benedikt hefði síðar verið boðið annað sæti á lista flokksins en hafnað því.

Þáði 2. sætið en vildi afsökunarbeiðni

Í færslu á Facebook í dag skrifar Benedikt að hann hafi þvert á móti fallist á það. Hins vegar hefði honum þótt eðlilegt og nauðsynlegt að gert yrði út um „þau leiðindamál“ sem hófust á ákvörðun uppstillingarnefndar flokksins að bjóða honum neðsta sætið.

Fór hann því fram á að þeir sem að málinu komu bæðu hann afsökunar. „Ég tók fram að þetta væri einungis til þess að ljúka þessum málum af minni hálfu og leggja grunn að góðu samstarfi. Ég myndi ekki gera þær afsakanir opinberar,“ skrifar Benedikt. Þorgerður hafi hins vegar svarað því til að slík afsökunarbeiðni væri ekki í boði.

Benedikt lýkur færslunni á að þau Þorgerður hefðu verið sammála um að samskipti þeirra væru trúnaðarmál, en í ljósi þess að Þorgerður hefði kosið að ræða þau opinberlega geri hann það líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert