Sá ekki Kastljós en lofar auðlindaákvæði Katrínar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur það vera alvarlegt mál ef fyrirtæki telji sig í stöðu til að hlutast til um formannskjör í Blaðamannafélags Íslands eða öðrum slíkum vettvangi. Hann lýsti enn fremur yfir ánægju með auðlindaákvæði í stjórnskipunarfrumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Þetta kom fram í svörum hans við spurningum Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Vildi ekki tjá sig um ummæli Brynjars eða annarra

Hann segir Samherja hafa gengið mjög langt en aðspurður um ummæli Brynjars Níelssonar í Kastljósi í gærkvöldi og kvaðst hann ekki ætla að tjá sig um einstök ummæli annarra þingmanna flokksins. Hann hefði ekki horft á Kastljós í gær og væri ekki mættur á  þing til að tjá sig um viðtalsþætti Ríkisútvarpsins.

Góð staða í sjávarútvegi þjóðarhagur

Varðandi stöðu sjávarútvegsins sagði Bjarni hann standa gífurlega vel og að það væri þjóðarhagur. Mikil verðmæti væru þar ósótt. Hann bendir á nýja skýrslu sjávarútvegsráðuneytis þar sem kom fram að virði framleiðslu sjávarútvegs gæti hækkað verulega.

Þá bendir hann að lokum á að stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur hafi að geyma auðlindaákvæði sem standi tryggan vörð um þá réttarstöðu að enginn fái til varanlegrar eignar nýtingu á auðlindum þjóðarinnar. Hann sagði það ónauðsynlegt að kveða á um tímabundnar nýtingarheimildir ef þær væru afturkallanlegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert