Samningur um hönnun fyrstu lotu borgarlínu

Fyrsta lota borgarlínu á að vera komin í gan eftir …
Fyrsta lota borgarlínu á að vera komin í gan eftir fjögur ár. Teikning/Borgarlínan

Samningur um hönnun á fyrstu lotu borgarlínu var undirritaður í húsakynnum Vegagerðarinnar í dag.

Alþjóðlega verktakafyrirtækið Artelia Group leiðir verkefnið í samstarfi við verkfræðistofurnar MOE og Hnit og arkitektastofurnar Gottlieb Paludan frá Danmörku og Yrki, sem er íslensk. Teymi þessara fimm fyrirtækja var hlutskarpast í hönnunarútboði sem fram fór innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Fyrirtækið Artelia Group er með starfsemi í 40 löndum og yfir 6.100 starfsmenn á sínum snærum. Fyrirtækið hefur hannað um 175 kílómetra af hraðvagnakerfum (BRT), líkt og borgarlínan verður, og auk þess 255 kílómetra af léttlestarkerfum. Þá sérhæfir MOE sig í innviðaverkefnum en fyrirtækið hefur meðal annars séð um grunn- og forhönnun fyrir lestarkerfi Kaupmannahafnar.

Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hnits, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Sólveig …
Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hnits, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Sólveig Berg Emilsdóttir frá Yrki arkitektum undirrita samninginn. Ljósmynd/Aðsend

Hamraborg–miðbær–Ártúnshöfði

Fyrsta lota borgarlínu verður 14,5 kílómetra löng og verður sérstöku sérrými fyrir borgarlínuvagna komið fyrir frá Hamraborg í Kópavogi um miðborg Reykjavíkur og alla leið upp í Ártúnshöfða. Á framkvæmdum við fyrstu lotu að ljúka árið 2025.

Umsagnartíma frumdraga lýkur 31. maí í samráðsgátt stjórnvalda og verður þá hafist handa við að skoða áberndingar og þróa tillögurnar.

Hagt er eftir Hrafnkatli Á. Proppé, forstöðumanni Verkefnastofu borgarlínu, í tilkynningu að mörg skref séu þó fram undan áður en endanlegar útfærslur fyrstu lotu liggja fyrir.

„Við erum með alveg nýtt verkefni í okkar samhengi þó flest okkar þekki hágæða almenningssamgöngur frá öðrum löndum. Það er því nauðsynlegt að við nýtum hönnunarferlið til að auka samtalið um verkefnið og þær breytingar á borgarumhverfinu og samgöngutækifærum sem það boðar. Í þessu ljósi er ákaflega mikilvægt að við njótum aðstoðar reynslumikils hönnunarteymis sem hefur komið að fjölda sambærilegra verkefna og getur hjálpað okkur að setja viðfangsefnið og áskoranirnar í stærra samhengi,“ segir Hrafnkell

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert