Smitin tengjast öll H&M

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hafa níu greinst með Covid innanlands síðustu vikuna og tengjast smitin öll smiti sem fyrst greindist í verslun H&M á Hafnartorgi. Fjögur smit á landamærunum hafa verið af indverska afbrigðinu en það hefur ekki enn náð inn til landsins. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi dagsins. Hann segir að af þessum níu hafi fjórir verið utan sóttkvíar. Þórólfur segir að raðgreining og smitrakning hafi leitt í ljós að svo virðist sem veiran hafi farið víða og talsverður fjöldi hafi þurft að fara í sóttkví vegna þessa. Hann segir líklegt að fleiri eigi eftir að greinast á næstunni. Veiran er af afbrigði sem kennt hefur verið við Bretland og má rekja til landamæranna frá því í apríl.

Tekin voru rúmlega 1.300 sýni innanlands í gær og 723 á landamærunum.

Sjö virk smit greindust á landamærunum síðustu viku og öll við fyrri skimun. Þórólfur segir að smitin á landamærunum hafi verið nokkuð sveiflukennd að undanförnu en ánægjulegt sé að það sé ekki um fjölgun smita að ræða. Flest smit sem hafa greinst að undanförnu á landamærunum hafa verið af breska afbrigðinu en alls hafa fjórir verið með indverska afbrigðið við komuna til landsins. Enn sem komið er hefur indverska afbrigðinu ekki tekist að smokra sér inn í landið.

Þórólfur deilir áhyggjum með þeim sem hafa áhyggjur af miklum tilslökunum á sama tíma og smit eru að greinast og hvetur fólk til þess að fara með gát og sinna sóttvörnum. Ef fólk sinni áfram persónulegum sóttvörnum eins og það hefur gert vel hingað til sé hægt að taka á þeim hópsýkingum sem geta komið upp.

„Vonandi verður þróunin ekki sú að það þurfi að herða aftur á takmörkunum innanlands. Það verður að koma í ljós,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert