Svartnætti og mikil vonbrigði

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður foreldrafélags Fossvogsskóla segir mikil vonbrigði fyrir skólasamfélagið að komið sé nálægt byrjunarreit í framkvæmdum við skólann.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í gær vegna úttektar Eflu á Fossvogsskóla kemur fram að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir rakaskemmdir í öllum byggingum skólans. Auk þess að laga skemmdir og koma í veg fyrir myglu leggi Efla til að farið verði í gagngerar endurbætur á byggingunum til að koma í megi í veg fyrir framtíðarvandamál.

„Kolsvört skýrsla“

„Þetta er kolsvört skýrsla og það eru mikil vonbrigði fyrir skólasamfélagið að við séum nálægt byrjunarreit í framkvæmdum,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, spurður út í úttekt Eflu.

„Rakaummerki, rakaskemmdir og hækkaður raki er til staðar í byggingum. Eldri viðgerðir hafa ekki reynst fullnægjandi í öllum tilfellum og liggur fyrir að rakaskemmd byggingarefni eða raka má enn finna á einhverjum viðgerðum svæðum,“ segir meðal annars í úttektinni.

Karl Óskar segir mikla athygli vekja að af þeim svæðum sem Efla gerði athugasemdir og voru með áberandi rakaskemmdum hafi borgin þegar látið gera við og útskrifað. „Það er svartnættið í þessu að eftir tveggja ára vinnu og hundruð milljóna sem hefur verið varið til verksins þá hefur annaðhvort undirbúningsvinnan eða eftirlitið klikkað svona gríðarlega,“ greinir hann frá. 

Útikennsla við Fossvogsskóla í mars síðastliðnum.
Útikennsla við Fossvogsskóla í mars síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir mikilvægt að skapa traust um komandi framkvæmdir og leggur foreldrafélagið gríðarlega áherslu á að Efla fái að vinna verkið áfram og fylgja því eftir.

„Það er ljóst og þekkt að traust foreldra og skólasamfélagsins til stofnana borgarinnar í þessu máli er í lágmarki. Það þarf að berja í brestina og þau þurfa að hafa frumkvæðið að því með því að fá að borðinu teymi fagmanna sem við treystum,“ bætir hann við.

Korpuskóli ekki í stakk búinn 

Í tilkynningu borgarinnar kom fram að skólastarfsemin verður í Korpuskóla næsta vetur, þar sem nemendur Fossvogsskóla hafa verið að undanförnu, og segir Karl Óskar það mikil vonbrigði að komast ekki í Fossvogsskóla fyrr en í fyrsta lagi eftir ár. Hann segir Korpuskóla ekki í stakk búinn til að taka á móti öllum nemendunum í þetta langan tíma. Leita þurfi lausna á því en ekkert annað skólahúsnæði ku liggja á lausu fyrir heilan skóla.

„Það hefur líka hamlað okkur að húsnæðið í Korpu er ekki í lagi. Það voru gerðar ákveðnar viðgerðir á því í páskafríinu en hluta af húsnæðinu er ekki hægt að nota vegna rakaskemmda,“ segir hann og bendir á að börn og starfsfólk hafi kennt sér meins. Borgin verði að finna lausn á þessum vanda.

Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin …
Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin á mygluvandræðum í Fossvogsskóla. Ljósmynd/mbl.is

Fundahöld með borginni í dag

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur boðað til fundar með starfsmönnum Fossvogsskóla síðdegis í dag og í framhaldinu verður haldinn teams-fundur með foreldrum þar sem fulltrúi Eflu verður viðstaddur.

Karl segir foreldra áhyggjufulla um framhaldið og nefnir að hægt hafi á skráningum nýnema í skólann vegna óvissunnar sem hefur verið uppi um skólastarfið.

Útikennsla við Fossvogsskóla í mars síðastliðnum.
Útikennsla við Fossvogsskóla í mars síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgin hafi eytt ári í málþóf

Spurður hvort borgin hefði mátt gera betur gagnvart Fossvogsskóla segir hann að síðustu tæpu þrjú ár hafi hún eytt um það bil einu ári í málþóf og hunsað skólasamfélagið og ákall þess um viðbrögð. „Það eitt og sér er afar sorglegt,“ segir Karl og bætir við að fyrir ári hafi foreldraráðið sent lista til borgarinnar með ábendingum um hvað mætti betur fara. „Núna sjáum við að flest þeirra atriða rata inn á lista Eflu en við fengum ákúrur fyrir að vera ekki fagleg í framsetningu og það var blásið á stóran hluta þessa lista sem kreddur ófaglærðra en núna kemur þetta frá faglærðum,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert