Svartþrastarfrú í Mosfellsdal, sem hægt er að fylgjast með í beinu streymi á YouTube, hefur ekki setið auðum höndum, eða vængjum öllu heldur, að undanförnu. Eins og mbl.is greindi frá missti hún ungana sína tvo í marsmánuði en síðan þá hefur lífið leikið við hana og eru nú ungarnir sem klöktust út í aprílmánuði flognir á vit ævintýranna og fjórir nýir ungar komnir í svartþrastarhreiðrið.
Atburðarásin hefur öll átt sér stað við heimili Hreiðars Gunnlaugssonar í Mosfellsdal. Þar hefur frúin duglega verpt hvorki meira né minna en 17 eggjum og gert sér fjögur hreiður. Alls hefur hún verpt sautján eggjum og hafa átta ungar klakist út úr þeim, en eins og áður sagði drápust tveir ungar í norðanhríð.
mbl.is ræddi við Hreiðar síðast fyrir tæpum mánuði síðan. Þá voru tveir ungar í hreiðri svartþrastarfrúarinnar. Nú eru ungarnir flognir á braut og hóf svartþrastarfrúin að verpa að nýju í byrjun maí.
Í þetta skiptið verpti svartþrastarfrúin í hreiður sem hún gerði sér í mars en hafði ekki verpt í áður.
„Þetta er fjórða varpið hjá henni á þessu ári. Nú er hún í hreiðri sem hún gerði í mars en verpti ekki í það þá, það snýr í suður og fær hún sól á sig nær allan daginn,“ segir Hreiðar.
Þannig að hún er býsna klók?
„Já, ég held að náttúran sé ekki eins vitlaus og við,“ segir Hreiðar og hlær.