Þrír fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur

Vesturlandsvegur. Mynd úr safni.
Vesturlandsvegur. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír voru fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur á Vesturlandsvegi í kvöld. Tveir bílar úr gagnstæðri átt skullu saman skammt norðan við Köldukvísl. 

„Þetta var alvarlegt umferðarslys, mjög harður árekstur,“ segir varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. 

Þrír voru fluttir á slysadeild. Beita þurfti klippum til þess að ná einum hinna slösuðu úr annarri bifreiðinni og er viðkomandi með töluverða áverka að sögn varðstjóra. Annar var með viðkomandi í bifreiðinni og hlaut sá einnig talsverða áverka, en ekki mikla eða lífshættulega. Sá sem var í hinni bifreiðinni hlaut minniháttar áverka að sögn varðstjóra. 

Um klukkan 21:35 lauk hreinsunarstarfi á vettvangi slyssins og opnað var fyrir umferð um Vesturlandsveg að nýju, en umferð hafði verið stýrt upp á hringtorg sem liggur yfir veginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka