7.700 skömmtum af Pfizer var útdeilt í gær hér á landi. Því var margt um manninn þegar mbl.is bar að garði í Laugardalshöll rétt fyrir hádegi en ráðist var í að fullbólusetja þau sem komu fyrir um þremur vikum.
Feðginin Heiðar Bergmann Heiðarsson og Kristbjörg Eva Heiðarsdóttir voru þar með bros á vör en Kristbjörg er hjúkrunarfræðingur og árgangur föður hennar var boðaður í bólusetningu á dögunum.
„Það eru bara þrjár vikur eftir og þá erum við farin af landi brott,“ segir Heiðar glettinn en Kristbjörg segist þó ekki vera að fara neitt enda sé hún ófrísk, gengin 33 vikur og verður því komin með fulla virkni við lok meðgöngunnar. „Litli vonandi líka,“ segir hún og á þá við ófæddan son sinn en nýrri rannsóknir hafa bent til þess að ófædd börn mæðra sem hljóta mRNA bóluefni við kórónaveirunni, sem Pfizer er, fæðist ónæm.
„Við vorum reyndar að ræða það áðan að þegar hún var tveggja ára þá fór ég með hana í sprautu og núna fer ég svo aftur með hana“ segir Heiðar en Kristbjörg vill þó meina að taflinu sé nú snúið við og hún sé að fara með hann í þetta skiptið auk ófædds sonar síns. Um sé að ræða þrjár kynslóðir á leið saman í seinni sprautuna.
Á leið úr bólusetningu var einnig Danielle Pamela Neben en stórfjölskylda hennar býr úti í Kanada. „Við erum búin að vera svo heppin hérna á Íslandi. Mamma mín er í Kanada og veitingastaðir eru ekki einu sinni opnir þar," segir hún og heldur áfram:
„Fyrir mig er þetta mikið tækifæri að geta hitt fjölskyldu og vini sem ég hef ekki séð í heil tvö ár og taka með þeim kaffi án þess að vera hrædd um að smita eða smitast. Ekki meira Zoom allavega, ég vil ekki meira Zoom,“ segir hún og hlær en aðeins er búið að fullbólusetja um 4,6% af kandadísku þjóðinni og töluverðar takmarkanir enn í gildi.
Auk þess var Silja á leið í seinni sprautuna en hún, líkt og Kristbjörg, er ófrísk. „Ég er komin 22 vikur á leið og því mjög ánægð með að geta lifað svolítið í ró svona í seinni helmingi meðgöngunnar,“ segir hún og segist spennt að ferðast innanlands í sumar.
Að lokum var rætt við Halldóru en aðspurð hvort hún ætli sér að eiga frábært sumar nú þegar hún er fullbólusett segist hún vona það, enda hafi hún þegar pantað sér utanlandsferð til Barcelona.