Jin Zhijian, sendiherra kínverska alþýðulýðveldisins, segir ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að taka þátt í viðskiptaþvingunum gegn kínverskum embættismönnum, hafa haft mjög neikvæð áhrif á tvíhliða samband ríkjanna.
Jin lét ummælin falla þegar hann flutti tölu á málþingi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, sem haldið var í gær, og bar yfirskriftina „Hvenær koma kínversku ferðamennirnir og erum við tilbúin að taka á móti þeim?“
Jin benti á að Kína hefði fyrst ríkja tilkynnt sjúkdóminn Covid-19 til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO. „Veiran fannst í Wuhan-borg og það tók okkur þrjá mánuði að ná stjórn á ástandinu.“
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir hann það athyglisvert að ekki bæri á mikilli umfjöllun vestrænna fjölmiðla um gang faraldursins í Kína núna. „Ástandið er, almennt séð, nokkuð gott,“ bætti hann við. Aðeins séu nokkur ný tilfelli veirusmita á hverjum degi innan Kína. „Flest þeirra greinast raunar á landamærasvæðunum.“