Vill „bæta, breyta og byggja“ BHM upp

Friðrik Jónsson, nýkjörinn formaður BHM.
Friðrik Jónsson, nýkjörinn formaður BHM. Ljósmynd/Aðsend

Friðrik Jónsson nýkjörinn formaður BHM gerði nýja MeToo bylgju að umtalsefni í ræðu sinni á aðalfundi bandalagsins í dag. „Þið eruð ekki einar, ég er viss um að aðildarfélög og félagsfólk BHM stendur með ykkur, öll sem eitt,“ sagði Friðrik um þær konur sem hafa að undanförnu stigið fram og greint opinberlega frá reynslu sinni.

Friðrik sagði að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins yrðu að grípa til aðgerða og innleiða skýra verkferla til að koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði og styðja þolendur í leit að aðstoð. 

Bíðum ekki eftir næstu bylgju frásagna. Leggjum okkur öll fram við að uppræta ofbeldi, áreitni og einelti hvar sem er og hvenær sem er. Sérstaklega við sem njótum forréttinda. Felum okkur ekki á bakvið þau, heldur göngumst við þeim og beitum þeim þá frekar til góðs. Styðjum, virðum og stöndum með,“ sagði Friðrik.

Friðrik var kjörinn nýr formaður BHM í rafrænni kosningu sem lauk á þriðjudag og tók hann formlega við embættinu á aðalfundi í dag. 

Í ræðu sinni benti Friðrik á að fjórir mánuðir væru til alþingiskosninga og að BHM myndi hefja samtal við fulltrúa flokkanna í aðdraganda þeirra um hagsmunamál sín: „Samtal sem við munum síðan fylgja eftir í kjölfar kosninga við nýja ríkisstjórn og jafnt og þétt í aðdraganda nýrra kjarasamninga.“

Hann sagði einnig að bandalagið myndi hafa frumkvæði að samtali við aðra aðila á vinnumarkaði um umbætur.

„Við eigum strax að hefjast handa við að þrýsta á um opið samtal um bætt samskipti og vinnubrögð á íslenskum vinnumarkaði til næstu framtíðar með fagmennsku, gagnkvæma virðingu, jafnrétti og réttlæti að leiðarljósi,“ sagði Friðrik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert