Áforma bann við netalögnum í sjó

Flesti veiðileyfin sem sveitarfélagið Norðurþing úthlutar eru í nágrenni við …
Flesti veiðileyfin sem sveitarfélagið Norðurþing úthlutar eru í nágrenni við Húsavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Norðurþing mun verjast af fullum þunga áformum Fiskistofu um að banna veiðar á göngusilungi í net fyrir landi jarða sveitarfélagsins í Skjálfandaflóa.

Að baki áformum Fiskistofu stendur ósk veiðifélaga á vatnasvæði Laxár í Aðaldal og Hafrannsóknastofnun hefur mælt með slíku banni. Stefnir því í harðar deilur í héraði um hlunnindi Norðurþings á Skjálfanda.

Í erindi Veiðifélags Laxár í Aðaldal, Veiðifélags Mýrarkvíslar og Veiðifélags Reykjadalsár og Eyvindarlækjar til Fiskistofu er vísað til hnignandi stofna í ánum. Fullyrt er að lengi hafi verið á allra vitorði að lax veiðist í net sem lögð eru fyrir göngusilung, sérstaklega smálax. Orðrómur hafi verið um að einstaka netaveiðimenn hafi fengið vel á annan tug laxa.

Gripið hafi verið til margháttaðra ráðstafana til að vernda lax í ánum, meðal annars sé veiddum laxi sleppt aftur í þeim öllum.

Fiskistofa kynnti áform sín um að banna netaveiði göngusilungs í sjó í Skálfandaflóa með bréfi sem barst sveitarfélaginu 25. maí. Bannið á að gilda frá 10. júní til 10. ágúst árlega í fimm ár og taka gildi nú í júní.

Tilgangurinn er að koma í veg fyrir veiðar á laxi í silungsnet á göngutíma laxa en þær eru sagðar hafa verið verulegar. Einnig að vernda bleikjustofna á áhrifasvæði bannsins þar sem stofnarnir eru ekki taldir þola veiði.

Hafrannsóknastofnun mælir með veiðibanni. Í svari hennar við erindi Fiskistofu kemur fram að fiskistofnar á vatnasvæði Laxár eigi undir högg að sækja og stærð göngustofna sé í sögulegu lágmarki. Varasamt geti verið að stunda silungsveiðar í sjó í nágrenni árinnar, bæði vegna mögulegs meðafla á laxi og vegna óvissu um uppruna og stöðu þeirra sjóbleikjustofna sem veitt er úr.

Úthluta 10 leyfum

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings hafnar alfarið málatilbúnaði veiðifélaganna sem áform Fiskistofu um bann við nýtingu sveitarfélagsins á hlunnindum sem fylgja sjávarjörðum í eigu þess byggjast á. Telur nefndin að ekkert bendi til annars en að þær silungsveiðar sem stundaðar hafa verið fyrir landi Húsavíkur og byggjast á veiðiheimildum sem Norðurþing úthlutar árlega séu bæði varfærnar og sjálfbærar. Heimildir til úthlutunar veiðileyfanna séu skýrar og óumdeildar.

„Verði málinu fram haldið á þeim forsendum sem lagt hefur verið upp með af hálfu veiðifélaganna og Fiskistofu, byggt á jafn einhliða, haldlitlum og illa ígrunduðum gögnum og raun ber vitni, sér sveitarfélagið Norðurþing sig knúið til þess að verjast málinu af fullum þunga,“ bókaði skipulags- og framkvæmdanefnd.

Fram kemur í erindi veiðifélaganna að Norðurþing selji 10 silungsveiðilagnir á 12 þúsund krónur leyfið. Svo virðist sem heildartekjur sveitarfélagsins nemi því 120 þúsund krónum á ári. Benda veiðifélögin á að mun meiri hagsmunir felist í því að tryggja sölu veiðileyfa í árnar til framtíðar og móttöku veiðimanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert