Alma Möller, landlæknir, og Eliza Reid, forsetafrú, voru heiðraðar á ársþingi Bandalags kvenna í Reykjavík (BKR) í vikunni. Alma var valin kona ársins 2020 og Eliza hlaut hvatningarviðurkenningu.
BKR er bandalag 15 kvenfélaga í Reykjavík og var stofnað árið 1917. Undanfarin ár hefur bandalagið valið konu ársins og veitt hvatningarviðurkenningu til félaga og einstaklinga.
Í umsögn BKR um Ölmu segir í tilkynningu frá félaginu:
„Segja má að Ölmu hafi verið kastað í djúpu laugina í byrjun mars í fyrra þegar Covid19 skall á með fullum þunga. Dag eftir dag birtist hún á skjánum sem hluti þríeykisins og hvatti okkur áfram. Þvo hendur, spritta, ekki fálma í andlitið, svo mætti lengi telja. Með fallegri og látlausri framkomu, samt ákveðin, vann hún sér inn virðingu þjóðarinnar. Alma er fyrsta konan sem gegnir stöðu landlæknis og brýtur þannig blað í 260 ára sögu embættisins.“
Í umsögn BKR um Elizu segir:
„Fyrir hönd allra kvenna á Íslandi hlýtur Eliza Reid forsetafrú hvatningarviðurkenningu Bandalags kvenna í Reykjavík fyrir árið 2020. Konur landsins hafa sýnt mikla samstöðu og verið hver annarri hvatning í baráttunni við Covid-19 og þar er Eliza Reid forsetafrú í fararbroddi. Hún er því verðugur viðtakandi viðurkenningar fyrir hönd allra kvenna á Íslandi árið 2020.“