Samtökin Amnesty International héldu í dag upp á 60 ára afmæli sitt. Sveinn Rúnar Hauksson hlaut nafnbótina aðgerðasinni Amnesty International.
Anna Lúðvíksdóttir, formaður samtakanna, hefur opnað útisýningu um sögu og mannréttindasigra samtakanna síðustu 60 ára í máli og myndum.
Sýningin er í formi skilta sem segja sögu af einstaka sigrum samtakanna og þróun þeirra síðustu 60 árin. Á hátíð sem haldin var í dag var einnig spilað lag sem hljómsveitin TeamDreams samdi sérstaklega í tilefni af 60 ára afmælinu og ber það nafnið Where the Maps Run Out.
Þann 28. maí 1961 fékk breskur lögfræðingur að nafni Peter Benenson, birta eftir sig grein í dagblaðinu Observer. Með þessu bréfi kallaði hann eftir því að fólk gripi til aðgerða fyrir þá sem væru í fangelsi vegna skoðana sinna.
Síðan eru liðin sextíu ár en upphaf Amnesty hefur verið miðað við þennan dag enda hófst í kjölfar bréfsins alheimshreyfing í þágu mannréttinda.
Claudia Wilson, varaformaður samtakanna veitti viðurkenninguna „aðgerðasinni Amnesty International“ fyrir hönd stjórnar. Almenningur fékk það hlutverk að tilnefna baráttufólk til viðurkenningarinnar og bárust samtökunum fjölmargar tilnefningar.
Var tekin ákvörðun um að veita Sveini Rúnari Haukssyni titilinn. Í fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International kemur fram að Sveinn Rúnar hafi verið öflugur málsvari mannréttinda frá unga aldri. Hann hafi verið framarlega í baráttunni fyrir mannréttindamiðaðri nálgun í geðheilbrigðismálum.
Sveinn Rúnar sat rúman áratug í stjórn Geðhjálpar og hefur kallað eftir mannúðlegri aðferðum í geðheilbrigðisþjónustu í stað nauðungarvistunar og sjálfræðissviptingar. Hann var að auki formaður félagsins Ísland-Palestína til fjölda ára og beitti sér með greinaskrifum og friðsamlegum aðgerðum fyrir því að ná athygli almennings á stöðu mála í Palestínu sem og að fræða og þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina þegar kemur að mannréttindum þar.