Tilkynnt var í dag um 37 verkefni sem hljóta styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands, að heildarupphæð 90 milljón króna.
Úthlutunin fór fram við athöfn í Hörpu í dag og fluttu ávörp þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Auk þess var tónlistaratriði í boði Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.
Við úthlutunina var horft til fjölbreyttra þarfa barna og ungmenna, þar sem koma til álita þættir á borð við búsetu, aldur, kyn, uppruna og efnahag, að því er fram kemur í tilkynningu. Þá má í ár greina fjölgun verkefna utan höfuðborgarsvæðisins.
„Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun,“ segir í tilkynningunni.
Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.
Alls bárust 113 umsóknir að upphæð 373 milljón króna, rúmlega fjórföld sú upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar.