13 til 14 þúsund manns fá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll í næstu viku. Þá verður eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma sem vildi ekki eða komst ekki í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca á sínum tíma boðið bóluefni Pfizer. Ekki er útlit fyrir víðtæka handahófskennda bólusetningu í næstu viku en hún fer þó bráðlega af stað.
Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Í næstu viku verður fólki úr forgangshópum sem hefur einhverra hluta vegna ekki þegar fengið bólusetningu boðið bólusetning að nýju. Þá fara sömuleiðis fram endurbólusetningar.
„Við erum að bjóða þeim sem við höfum boðið áður í bólusetningu áður en við förum í tilviljanakennda úrtakið,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.
Ástæðan er sú að margir sem hafa þegar fengið boð áttu ekki heimangengt þegar þeim var boðið í bólusetningu áður. Mögulega fer einhver handahófskennd bólusetning af stað í vikunni, ef rými verður fyrir slíkt. Handahófskennda bólusetningin fer þannig fram að árgangar karla annars vegar og kvenna hins vegar verða valdir handahófskennt og þeim boðin bólusetning.
7.700 skammtar af bóluefni Pfizer gegn Covid-19 verða notaðir á þriðjudag, þá verður bólusett með 5.500 skömmtum af bóluefni Moderna í vikunni og einhverjum skömmtum frá Janssen, líklega um það bil þúsund.
„Það gæti alveg verið að það verði einhver tilviljanakennd bólusetning líka,“ segir Ragnheiður.
Eins og áður segir verður fólki sem vildi ekki bóluefni AstraZeneca þegar það stóð til boða boðin bólusetning með bóluefni Pfizer.
„Alla vega eldri árgöngunum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Ragnheiður.
Spurð um svokallaða opna daga sem rætt hefur verið um í bólusetningu segir Ragnheiður að mögulega verði ekki þörf fyrir þá þar sem nú sé horft til þess að bólusetja alla þá úr forgangshópum sem það vilja.
„Þetta er leiðin sem við förum, að bjóða bara nógu mikið og nógu oft til þess að gá hvort allir komist ekki einhvern tímann. Ef fólk er búið að fá boð og hefur ekki komist erum við orðin liprari með að hleypa fólki til okkar í bólusetningu,“ segir Ragnheiður. Fólk sem hefur fengið boð getur þá mætt í bólusetningu næst þegar bóluefnið sem það á að fá stendur til boða.
Í gær greindi RÚV frá því að útlit væri fyrir að fáir skammtar kæmu til landsins af bóluefni AstraZeneca í sumar. Spurð hvort það muni hafa áhrif á seinni bólusetningu þeirra sem þegar hafa fengið einn skammt af bóluefni AstraZeneca segir Ragnheiður að vonandi muni það ekki hafa áhrif.
„Þess vegna erum við ekki að bólusetja neina nýja með bóluefni AstraZeneca núna heldur erum við að geyma skammtana fyrir seinni bólusetningu. Við reynum að safna upp og eiga fyrir bólusetningu númer tvö.“