Sigurður Magnússon, leiðsögumaður hjá Arctic Adventures, er bjartsýnn fyrir komandi ferðaþjónustusumri og segir hann bókanir fyrir sumarið líta vel út „Ég er bókaður út september í ferðir, þannig ég veit alveg hvernig ég er að fara vinna næstu mánuðina. Hingað til er þetta bara mjög gott, þetta er að fara af stað.“
Sigurður var nýbyrjaður í sex daga hringferð þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum við Geysi þar sem hann var staddur með hóp ferðamanna. Spurður hvort hann væri var við miklar breytingar á ferðaþjónustunni í samanburði við fyrri ár segir Sigurður opnunartímann standa hvað mest upp úr.
„Ég finn mest fyrir því hversu lítið er búið að opna á veitingastöðum og svoleiðis. Þetta er svipað og þetta var fyrir 10 til 15 árum þegar sumarið var að byrja. Ferðaþjónustan var náttúrulega orðin allt árið um kring, þá voru öll hótel og veitingastaðir opnir. Þetta virðist þó vera að fara í gang. Verið að opna í áföngum.“
Undanfarna mánuði hefur Arctic Adventures haldið úti ferðum upp að gosstöðvunum í Geldingadal, í íshellirinn í Langjökli og köfun í Silfru, svo eitthvað sé nefnt. Nú fara hins vegar fleiri ferðir að bætast við þegar ferðamönnum fer að fjölga. Er fyrirtækið nú að stækka starfsmannaflota sinn en að sögn Sigurðar voru nokkrir ráðnir inn í byrjun maí og munu enn fleiri starfsmenn bætast við hópinn þann 1. júní.