Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) reiknar með að hefja handahófskennda bólusetningu eftir árgöngum á fimmtudaginn með Janssen og Pfizer-bóluefninu.
Dregin var út mismunandi röð árganga eftir starfstöðvum heilbrigðistofnunarinnar og má sjá röðina hér. Tengillinn verður uppfærður vikulega þannig að hægt verður að fylgjast með hve langt röðin er komin á hverjum stað. Þannig hefst handahófskennd bólusetning á árgangi 1992 á Akureyri, 1977 í Fjallabyggð, 1980 á Sauðárkróki, 1983 á Blönduósi og 1967 á Húsavík. Alls eru árgangarnir 39 talsins frá 1967 til 2005.
Í næstu viku fær HSN um 2700 skammta af bóluefni. Um 1400 skammta af Pfizer bóluefninu, 960 skammta af AstraZeneca og 360 skammta af Janssen.
Pfizer og AstraZeneca verður nýtt í seinni bólusetningu en konur yngri en 55 ára sem fengu fyrri bólusetningu með AstraZeneca geta valið um Pfizer eða AstraZeneca í seinni bólusetningu. Janssen og Pfizer verða m.a. nýtt til að bólusetja þá sem eftir eru á forgangslistum og til að hefja handahófs bólusetningar.