Röð árganga sem eru næstir í handahófskenndri bólusetningu á Vestfjörðum var ákveðin í gær með gamaldags hætti. Þá drógu „listamennirnir“ og sjúkraliðarnir Elín Hólm og Ólafía Sif Magnúsdóttir miða með árganganöfnum úr dollu. Útlit er fyrir að um tíu árgangar fái bólusetningu gegn Covid-19 á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum í næstu viku.
Í gær fengu Vestfirðingar bólusetningu við bestu mögulegu aðstæður, að mati einhverra í það minnsta. Þá var bólusett úti í sólinni í fallegu útsýni á Ísafirði.
„Það var svo brjálæðislega gott veður hérna í gær að við skelltum bólusetningunum út. Eins og einhver orðaði það: „Þetta hlýtur að vera besti bólusetningarstaður í heimi“,“ segir Hildur Elísabet Pétursdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, kát í bragði.
Handahófskennd röð árganga er með eftirfarandi hætti á sunnan og norðanverðum Vestfjörðum: 1992, 1996, 2002, 1994, 1981, 1997, 1986, 1980, 1984, 1998, 2004, 1988, 2005, 1995, 2000, 2003, 1987, 1983, 1982, 1985, 2001, 1989, 1990, 1999, 1991, 1993.
„Við ákváðum að vera svolítið gamaldags í þessu og klipptum niður miða með öllum árgöngum sem eftir eru, settum þá í litla dollu og drógum. Þetta var allt mjög faglegt og vitni að þessu. Þetta var hugmynd sem kom annars staðar frá, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ætlar held ég að gera þetta á svipaðan hátt,“ segir Hildur.
Aðspurð segir hún að fólk hafi kallað eftir þessum fyrirsjáanleika í bólusetningum, þó ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um það hvaða árgangar fái bólusetningu hvenær.
„Fólk er náttúrulega farið að skipuleggja sig upp á sumarfríin svo fólk vildi fá að vita svona hvar það væri í röðinni,“ segir Hildur.
1.000 skammtar berast til Vestfjarða í næstu viku, bæði af bóluefni Pfizer og Janssen. Þó nokkuð verður um seinni bólusetningu með bóluefni Pfizer en einblínt verður á sjómenn í bólusetningu með efni Janssen. Einungis eina sprautu þarf af bóluefni Janssen gegn Covid-19 svo fólk teljist fullbólusett og því segir Hildur hentugt fyrir sjómenn, sem vita ekki alltaf hvenær þeir verða á föstu landi, að fá bóluefni Janssen.
Ekki er alveg ljóst hversu marga árganga verður hægt að bólusetja handahófskennt á Vestfjörðum í næstu viku en Hildur telur líklegt að það náist að bólusetja tíu árganga. Um það bil 30% úr hverjum árgangi sem á eftir að bólusetja hafa þegar fengið bólusetningu þar sem þau falla inn í aðra forgangshópa.