Kórónuveirusmitin sem hafa komið upp á síðustu dögum eru bundin við höfuðborgarsvæðið. Þau sem hafa verið að greinast að undanförnu hafa mörg hver ekki sýnt mikil einkenni Covid-19 og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að það auðveldi veirunni enn frekar að dreifast.
Fimm kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, þar af tvö utan sóttkvíar. Öll smitin nema eitt virðast tengjast fyrri smitum sem hafa verið rakin til smits sem kom upp í verslun H&M á Hafnartorgi. Það smit var tengt við smit sem kom upp á landamærum í apríl.
Smitið sem virðist ekki hafa tengsl við fyrri smit kom upp utan sóttkvíar en raðgreiningu og smitrakningu er ekki lokið.
13 kórónuveirusmit hafa greinst innanlands á síðustu þremur dögum. Spurður hvort tilefni sé til þess að herða sóttvarnareglur segir Þórólfur að slíkt sé ekki til alvarlegrar skoðunar.
„Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að þetta geti farið að blossa upp vegna þess að við vitum að veiran er þarna úti og ef fólk gætir ekki að sér, er í stórum hópum og er kannski að blandast mikið á milli getur veiran dreifst auðveldlega. Þeir sem hafa verið að greinast hafa líka ekki verið með neitt voðalega mikil einkenni þannig að það auðveldar veirunni enn frekar að dreifast Þess vegna viljum við leggja ríka áherslu á að fólk passi sig áfram, þetta er ekki búið og getur blossað upp,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Hann segir að það ráðist líka af því hverjir séu að smitast hvort herða þurfi sóttvarnareglur.
„Við vitum að yngra fólk veikist ekki eins alvarlega og eldra fólk. Nú erum við búin að bólusetja ansi marga af eldri kynslóðinni líka svo við erum í betri stöðu hvað það varðar en áður. Vonandi mun það hjálpa okkur að komast vel í gegnum þetta,“ segir Þórólfur.
Smitin eru bundin við suðvesturhornið en Þórólfur mælist samt sem áður ekki endilega til þess að fólk haldi sig frá ferðalögum um helgina. Veðrið bjóði þó varla upp á ferðalög.
„Það er spáð vondu veðri um helgina svo ég held að allir ættu bara að vera heima hjá sér.“