Garðhúsgögn, trampólín og þakplötur

Þetta trampólín í Árbænum fór sínar eigin leiðir í dag.
Þetta trampólín í Árbænum fór sínar eigin leiðir í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í einstaka verkefni það sem af er degi, flest vegna foks á lausamunum. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við mbl.is að almennt hafi verið rólegt í dag en að mögulega sé að bæta í. 

Tvær tilkynningar bárust björgunarsveitum vegna fokinna garðhúsgagna á Suðurnesjum og svo barst Davíð til eyrna tilkynning um fok á þakplötum á Eyrarbakka, á meðan hann ræddi við mbl.is.

Þá segir hann að eitthvað hafi verið um útköll í höfuðborginni, meðal annars vegna lausamuna og veislutjalda og gefur í skyn að einhverjar sumarlegar útskriftarveislur utandyra hafi fokið út í veður og vind. 

Lögreglumenn í Askalind í Kópavogi að bjarga því sem bjarga …
Lögreglumenn í Askalind í Kópavogi að bjarga því sem bjarga má. Ljósmynd/Aðsend

Slökkviliðið létti undir

Fyrr í dag fauk sendibíll út af vegi við álverið í Straumsvík. Varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sagði að bílstjóri sendibílsins hafi verið einn í bílnum og sloppið með skrámur. Auk þess sagði hann að slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefði tekið að sér verkefni í dag er snúa að foknum trampólínum og garðhúsgögnum. Þannig létti slökkviliðið undir með björgunarsveitum. 

Þá segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að lögreglan hafi haft í nógu að snúast í dag. 

Umferðarljós fuku um koll á vinnusvæði í Garðabæ.
Umferðarljós fuku um koll á vinnusvæði í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

Gul viðvörun fram á nótt

Spádeild Veðurstofu Íslands segir að veðrið suðvestanlands batni ekkert fyrr en líður á helgina. Gul veðurviðvörun er í gildi og mun verða fram á nótt að sögn sérfræðings veðurstofu. 

Undir Hafnarfjalli hafa hviður farið upp í allt að 39 metra á sekúndu og á Kjalarnesi og í Kollafirði hefur veðrið verið svipað. Það er því lítið ferðaveður og ferðamenn með aftanívagna ættu að gæta sín – það er enda forsenda gulu veðurviðvörunarinnar.

„Þröskuldurinn lækkar þegar svona er, föstudagssíðdegi að sumri til og margir á leið út á land. Í venjulegu árferði væri kannski ekki tilefni til viðvörunar en þegar við vitum að margir eru að ferðast með eftirvagna þá breytast forsendurnar,“ segir sérfræðingur veðurstofu við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert