Hættustigi aflétt á sunnanverðu landinu

Slökkviliðsmenn að störfum vegna gróðurelda.
Slökkviliðsmenn að störfum vegna gróðurelda. mbl/Sigurður Unnar

Ríkislögreglustjóri hefur, í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, ákveðið að aflétta almannavarnastigum vegna gróðurelda á svæðinu frá Austur-Skaftafellssýslu að Hvalfjarðarbotni.

Áfram verður í gildi hættustig vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, Vestfjarðakjálkanum og Norðurlandi vestra eða frá Hvalfjarðarbotni í suðri að Tröllaskaga í norðri, að því er segir í tilkynningu.

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum er áfram í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, það er frá Siglufirði og austur á Sandvíkurheiði.

Í dag er útlit fyrir rigningu með köflum á Suðaustur-, Suður- og Suðvesturlandi, en á Vesturlandi og Vestfjörðum fer ekki að rigna að ráði fyrr en á laugardagseftirmiðdag eða laugardagskvöld.

Ekki er spáð mikilli úrkomu á norðanverðu landinu, en þó gætu verið stöku skúrir þar, einkum á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert