Heilög barátta að standa vörð um tjáningarfrelsi

Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Sigmar Guðmundsson, fjölmiðlamaður og frambjóðandi Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, brennur fyrir málefnum fjölmiðla og segir framgöngu Samherja árás á frjálsa fjölmiðlun. 

Hann telur vert að skoða stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði vandlega en þó þannig að rekstur þess sé tryggður. Sigmar segir blöndu af því hugsjónarlega og persónulega hafa drifið hann í framboð, hugmynd sem hafði þó lengi blundað í honum.

Ekki langur aðdragandi

Var langur aðdragandi að þessu framboði?

„Nei, þetta hefur ekki verið langt ferli. Það er einhver tími síðan uppstillinganefndin hafði samband við  mig og spurði hvort ég væri tilbúinn að hugleiða þetta, sem ég svaraði játandi. Síðan fór þetta í einhverskonar ferli hjá þeim og mér tilkynnt um niðurstöðu fyrr í vikunni. Þau heyrðu í mér á þriðjudaginn og sögðust vilja bjóða mér þetta og þá var þetta bara spurning um að taka ákvörðun.“

Sigmar segist ekki hafa verið miklum í samskiptum við flokkinn áður. Uppstillingarnefndin hafi haft samband við hann og þá hafi ferlið hafist. „Síðan fæ ég bara allt í einu boð um að taka þessu og þá hafði ég mjög stuttan tíma til að ákveða endanlega.“

Sigmar hefur starfað í fjölmiðlum í nærri 30 ár.
Sigmar hefur starfað í fjölmiðlum í nærri 30 ár. mbl.s/Kristinn Magnússon

Stuttur vegur úr fjölmiðlum í pólitík

Hvað finnst þér þú hafa fram að færa á þingi?

„Það sem veldur því að maður tekur þessa ákvörðun er tvennt. Annars vegar persónulega hugsanir. Hef ég áhuga á því að fara í þetta? Hvað er ég búinn að vera að gera síðastliðin ár? Er ég tilbúinn að yfirgefa fjölmiðla? Þótt það væri frábært á RÚV þá togaði það mjög mikið í mig að prófa eitthvað nýtt og færa mig yfir á annan vettvang. Maður er auðvitað búinn að vinna við það að fylgjast með þjóðmálaumræðunni og fjalla um stjórnmálin og annað. Út frá því er þetta stuttur vegur yfir. 

Hins vegar er það bara staðan að stefna Viðreisnar talar bara til mín, þetta er öfgalaust fólk sem leggur mikla áherslu á frjálslyndi. Ég er líka mjög hrifinn af þeirri áherslu sem þau leggja á alþjóðasamstarf. Og síðan er það blessaði gjaldmiðillinn, sem mér finnst vera risavaxið mál,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is. 

Frekar persónulegt en annað að fara fram í ár

Sérðu einhver mál sem sérlega aðkallandi núna? Er eitthvað sem drífur þig á þing í ár frekar enn á öðrum kosningaárum, til dæmis 2017?

„Þar held ég bara að persónulegu vangavelturnar skipti meira máli. Ég er ekkert endilega viss um að ég hefði gert þetta fyrr. Það eru auðvitað bara svipuð úrlausnarefni í samfélaginu nú og voru þá, þó kórónuveirufaraldurinn breyti landslaginu eitthvað. Annars er ekkert í samfélagsgerðinni sem kallar meira á þetta í dag heldur en gerði fyrir fjórum árum. Þetta er bara svona persónulega skemmtilegur tími fyrir mig til að breyta til.

Það hefur auðvitað alltaf blundað í manni hvort það væri gaman að fara í pólitíkina, en það er nú ekki auðvelt fyrir menn sem eru í fréttum að fara að taka þátt í prófkjöri eða slíku. Þetta er rosaleg blanda af þessu hugsjónarlega og persónulega sem dregur mann yfir í þetta.“ 

Frá vinstri: Rafn Helgason, Ástrós Rut Sigurðardóttir, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður …
Frá vinstri: Rafn Helgason, Ástrós Rut Sigurðardóttir, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Elín Anna Gísladóttir og Thomas Möller. Ljósmynd/Aðsend

Finnurðu strax fyrir muni á því að sitja við hinn enda borðsins?           

„Þetta er auðvitað þannig breyting að maður veit ekki hvers konar viðbrögð maður mun fá. En maður er bara að fá vinsamlega kveður og hvatningu. Allir kollegar mínir á RÚV og öðrum miðlum sem hafa haft samband við mig eru bara mjög hvetjandi með þetta.“

Frelsi fjölmiðla verði heilög barátta

Sérðu fyrir þér að beita þér sérstaklega í málum tengdum fjölmiðlum í ljósi bakgrunns þíns þar?

„Já, það mun verða heilög barátta hjá mér alltaf að standa vörð um almennt tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla til þess að segja frá án þess að það séu hagsmunaöfl að toga hlutina til og teygja. Við vitum auðvitað að samfélagsumræðan og samfélagið tekur engum breytingum nema það séu traustir og öflugir fjölmiðlar sem hafa skilyrði til þess að fjalla um mál.

Mér hefur fundist, bæði nú í kórónuveirufaraldinum og í stjórnmála- og samfélagsumræðu síðustu ára, enn mikilvægara en áður að fólk standi vörð um tjáningarfrelsið. Það segir sig alveg sjálft að minn bakgrunnur teygir mig mikið inn í þessar pælingar.

Og ég get líka alveg sagt það að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig staða og rekstur einkarekinna miðla gengur, það er auðvitað eitthvað sem menn þurfa kannski að finna einhverja lausn á. Ég hefði gjarnan viljað sjá aðra lendingu í þessu fjölmiðlafrumvarpi þó ég þekki ekki nákvæmlega hvernig þetta vannst í þinginu.“

Fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði þurfi að skoða vel

Sérðu fyrir þér einhverja niðurstöðu í fjölmiðlafrumvarpinu sem þér hefði þótt ákjósanlegri?

„Nú er það spurning hvernig hægt er að ná þessu öllu saman í eina vinnu. Ég hef alveg áhyggjur af því að minni, en öflugir fréttamiðlar geti verið pínu útundan í þessu fyrirkomulagi sem var samþykkt síðast. En það er líka erfitt að segja þetta því eðli málsins samkvæmt þurfi stærri miðlar hærri styrki, reksturinn þeirra er bara þannig að það segir sig sjálft.

Það sem er samt svo risavaxið í þessu og menn hafa ekki gætt nógu vel að er hvernig stóru tæknirisarnir, samfélagsmiðlar og annað eru að mergsjúga auglýsingatekjur fjölmiðla til sín. Án þess að neitt komi á móti, þetta er svolítið erfitt úrlausnarefni. Það er kannski erfitt að leysa þetta samhliða fjölmiðlafrumvarpi.

Síðan eru menn auðvitað að tala um það að fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði sé eitthvað sem þurfi að skoða vel, ég er alveg sammála því að það megi gera það, en þá að því tilskyldu að menn veiki ekki RÚV að sama skapi, þá þarf eitthvað að koma á móti,“ greinir Sigmar frá. 

Árás á frjálsa fjölmiðlun

Nú hefur mikið borið á fréttum af afskiptum Samherja af hinu og þessu, hver er þín sýn á það mál?

„Mér finnst bara mjög ljótt hvernig það mál er vaxið. Mér finnst það einmitt vera dæmi um það sem langflestir fréttamenn hafa áhyggjur af í þessu. Það er ekki heppilegt að stór fyrirtæki og hagsmunaaðilar beiti sér með þessum hætti sem hér er gert. Þarna eru þeir ekki að nýta sér neitt tjáningarfrelsi, eða að verjast með eðlilegum hætti einhverjum ásökunum. Þetta er bara árás á frjálsa fjölmiðlun sem er að opinberast í þessum fréttum núna síðustu daga. Það er bara mikið áhyggjuefni og ekki gott. Þetta á ekki að vera svona,“ segir Sigmar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka