Hlutfall þeirra Íslendinga sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19 hér á landi er orðið hærra en í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum Our World in Data Hér á landi er hlutfallið 49,69% en í Bandaríkjunum 49,55%.
Hlutfall fullbólusettra er þó töluvert hærra í Bandaríkjunum en hér á landi, eða 39,7% á móti 31,1% fullbólusettum hér.
Ísrael stendur vel að vígi þegar kemur að bólusetningum en þar hafa 62,94% þjóðarinnar fengið að minnsta kosti einn skammt. Ekki liggja fyrir tölur frá Bretlandi í dag en í gær var hlutfallið 56,88%. Í Mongólíu er hlutfallið 56,35, Kanada 54,42% og Barein 52,74%.
Í Ungverjalandi hafa 52,63% þjóðarinnar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og í Þýskalandi 42,18%.
Af norrænu ríkjunum koma Finnar næstir á eftir Íslandi með 42,80% þjóðarinnar en í Svíþjóð hafa 35,93% fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Í Danmörku er þetta hlutfall 34,26%.
Ef horft er á talningu New York Times er Ísland í 15. sæti þegar kemur að bólusetningum. Þetta eru aftur á móti ekki tölur frá því í dag og vantar því inn upplýsingar um þá sem voru bólusettir bæði í gær og í fyrradag.