Loftslagsmálin eru stærsta utanríkismálið, segir Albert Jónsson, fv. sendiherra og einn helsti utanríkismálasérfræðingur landsins. „Ef það verður ekki umbreyting á orkubúskap mannkyns, þá mun alþjóðakerfið ekki ráða við hlýnun jarðar.“ Hann minnir á að í Parísarsamningnum felist engin skuldbinding.
Albert bendir á að á Íslandi sé um 80% orkunnar endurnýjanleg meðan hún sé aðeins um 11% í Bandaríkjunum og um 20% í Evrópu. Íslendingar hafi leyst flest þau vandamál, en það muni reynast flestum öðrum ríkjum of dýrt að ná sama árangri.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Albert í Dagmálum, streymisþætti Morgunblaðsins, sem opinn er öllum áskrifendum blaðsins. Þar var rætt um nýafstaðinn ársfund Norðurskautsráðsins í liðinni viku, breytta stöðu Íslands í geopólitískum skilningi og helstu áskoranir á vettvangi utanríkismála fram undan.