Ung stúlka er með alvarlega áverka eftir bílslys á Vesturlandsvegi í gærkvöldi. Þrennt var flutt á Landspítalann eftir harðan árekstur við Leirvogstungu, karlmaður á fimmtugsaldri og tvær ungar stúlkur.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins lentu pallbíll og fólksbíll saman um kvöldmatarleytið. Beita þurfti klippibúnaði til að ná stúlkunni sem er mjög alvarlega slösuð út úr bifreiðinni.
Alls voru sjúkraflutningar slökkviliðsins 120 talsins síðasta sólarhringinn og þar af voru 30 forgangsflutningar og þrír Covid-flutningar.