Ólympíufari Íslands fullbólusettur

Anton Sveinn McKee er fullbólusettur.
Anton Sveinn McKee er fullbólusettur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Anton Sveinn McKee, eini ólympíufari Íslands í ár, er fullbólusettur með bóluefni Moderna. Þetta staðfesti hann í samtali við blaðamann mbl.is í dag. Anton var ekki bólusettur hérlendis heldur í Bandaríkjunum með fulltingi græna kortsins.

Sundkappinn kvaðst vera á fullu við æfingar þessa daganna en hann er núna búsettur í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Virginíu. Þar keppir og æfir Anton sem atvinnusundmaður í liðinu Toronto Titans sem keppir í ISL-deildinni. Anton tryggði sér þátttökurétt fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í júlí 2019.

Óvissa í Japan

Ólympíuleikarnir eiga að hefjast 23. júlí næstkomandi í Japan. Kórónuveiran er enn í mikilli útbreiðslu þar í landi. Yfirvöld eru þó hörð á því að halda sig við áætlaðar dagsetningar. Alþjóðaólympíunefndin er sömuleiðis hörð á því að færa leikana ekki frekar úr skorðum eftir frestun síðasta árs þrátt fyrir mótmæli úr mörgum áttum.

Samkvæmt frétt CNN íhugar ríkisstjórn Japans nú að lýsa yfir áframhaldandi neyðarástandi í stórum hluta landsins, meðal annars Tókýó, þar sem leikarnir eiga að fara fram, nú þegar tæpir tveir mánuðir eru til stefnu.  

Skipulagsnefnd ólympíuleikanna í Tókýó á blaðamannafundi nú í maí.
Skipulagsnefnd ólympíuleikanna í Tókýó á blaðamannafundi nú í maí. AFP

Ekkert annað í boði en að æfa á fullu

Spurður út í þetta segir Anton ljóst að skiptar skoðanir séu um málið en ríkisstjórn Japans og alþjóðaólympíunefndin virðast ætla að halda fast við þetta. „Ég býst alla vega við að leikarnir verði haldnir og mun bara halda áfram að æfa á fullu, það er ekkert annað í boði!“

Mikilvægt að venjast tímamismuninum

Varðandi ferðalagið segir Anton það mikilvægast að venjast tímamismuninum. Anton mun líklega ferðast beint frá Bandaríkjunum og vill helst vera mættur 2-3 vikum fyrir keppni í rétt tímabelti svo líkaminn geti aðlagað sig.

Spurður um næstu skref segir Anton þau vera að skipuleggja æfingabúðir. Þjálfarinn hans sé í óða önn við það en Anton er einnig í samskiptum við ÍSÍ um búðir á vegum þess. Hann telur ólíklegt að æfingabúðirnar verði í Japan en þá yrðu þær í nærliggjandi löndum í sama tímabelti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka