Snekkjan A lónar nú á Skjálfanda úti fyrir Húsavíkurhöfn. Snekkjan er í eigu rússneska auðjöfursins Andreis Melinchenckos sem hefur verið á ferðalagi við Íslandsstrendur undanfarnar vikur.
Snekkjan er ein stærsta lúxussnekkja í heimi en um 65 manns eru um borð í henni. Melinchencko hefur verið á ferðalagi á snekkjunni við Íslandsstrendur undanfarnar vikur. Hún lónaði lengi fyrir utan Akureyri í apríl en hefur komið við á Siglufirði, Skagafirði, Eyjafirði, Önundarfirði og víðar á Vestfjörðum.
Snekkjan er tæpir 143 metrar að lengd, 25 metra breið og ná möstur hennar þjrú hátt í 100 metra hæð.
Samkvæmt heimildum mbl.is er Melinchencko nú þegar búinn að heimsækja Sjóböðin á Húsavík en þó ekki í þessari heimsókn. Leigði hann böðin til einkanota fyrir nokkrum vikum þegar hann dvaldi í Eyjafirði.