Aðalfundur Félags sjúkrahúslækna kallar eftir því að strax verði gengið í nauðsynlegar úrbætur til að tryggja hraða málsmeðferð í kjölfar alvarlegra atvika innan heilbrigðiskerfisins og að réttarstaða heilbrigðisstarfsfólks verði skýrð. Þetta kemur fram í ályktun félagsins sem samþykkt var á aðalfundi í gær.
Vísað er til þess þegar alvarlegt atvik kom upp á Landspítalanum árið 2012, en í kjölfarið var Ásta Kristín Andrésdóttir hjúkrunarfræðingur ákærð fyrir manndráp af gáleysi eftir að sjúklingur í hennar umsjón lést á gjörgæsludeild Landspítalans. Hún var síðar sýknuð af öllum sökum af dómstólum.
Segir í ályktuninni að afleiðingar þessarar ákæru hafi enn í dag áhrif á daglegt líf starfsmanna Landspítalans, en stofnaður var starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins til að stuðla að úrbótum í málum sem þessum innan heilbrigðiskerfisins.
„Starfshópur heilbrigðisráðuneytisins skilaði sínum tillögum árið 2015 en í þeim var óskað eftir umtalsverðum úrbótum á þessum málaflokki. Í dag, sex árum síðar, hafa engar úrbætur orðið á réttarstöðu heilbrigðisstarfsmanna,“ segir í ályktuninni og bætt er við að slíkur seinagangur sé algjörlega óásættanlegur.
Félagið býður fram krafta sínu við að klára þetta mál, en væntir þess jafnframt að endanlegar úrbætur verði settar fram innan árs. „Í jafnmikilvægu málaflokki sem þessum, er varðar bæði öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, væntir Félags sjúkrahúslækna þess að umræddar úrbætur verði endanlega tilbúnar í byrjun sumars 2022, en þá verða liðin tæplega tíu ár frá umræddu atviki.“
Á fundinum var einnig samþykkt önnur ályktun þar sem stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir voru hvött til þess að tryggja að mönnun lækna sé fullnægjandi svo starfsálag sé ásættanlegt. „Óviðunandi álag á vinnustað getur haft neikvæð áhrif á heilsu starfsmanna og leitt til skertrar starfsgetu,“ segir í síðari ályktuninni.