Frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda var rætt í efnahags og viðskiptanefnd nú í dag. Frumvarpinu er ætlað að skerpa á heimildum seðlabanka til þess að grípa til svokallaðra þjóðhagsvarúðartækja.
Þjóðhagsvarúðartækin í fasteignalánum eru í raun tvíþætt, annað þeirra er í notkun en hitt ekki. Það úrræði sem er í notkun er takmörkun á heildarhlutfalli veðsetningar fasteignar við lántöku. Hitt úrræðið er takmörkun lánsfjárhæðar miðað við tekjur neytanda. Þá er annað hvort miðað við greiðslubyrði lántaka eða hlutfall lánsfjárhæðar gagnvart árlegum ráðstöfunartekjum lántaka.
Til þess að grípa til allra þessara aðgerða þarf samþykkt fjármálastöðugleikaráðs og heimild er til undantekninga frá þeim.
Haldist frumvarpið í óbreyttri mynd yrði heimild seðlabankans til takmörkunar lánveitinga afskorðuð við mörkin 25-50% hvað greiðslubyrði neytandans varðar og 5-9 faldar árlegar ráðstöfunartekjur þeirra.
„Menn eru kannski fyrst og síðast að skýra og skerpa á heimildum seðlabankans þegar það kemur að þessum þjóðhagsvarúðartækjum og fjármálastöðugleika. Það eru ákveðnar spurningar sem þarf auðvitað að velta fyrir sér,“ segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar í samtali við blaðamann mbl.is.
Óli Björn segir þó ekki samhljóm um nauðsyn frumvarpsins sem stendur en á þó von á fleiri umsögnum, meðal annars frá hagaðilum. Fulltrúar Seðlabanka Íslands sátu fund dagsins en bankinn skilaði auk þess jákvæðri umsögn um frumvarpið.
Ef seðlabanki myndi takmarka greiðslubyrðahlutfalli við 25% hefðu 19,7% lánveitinga í fyrra verið takmarkaðar. Ef miðað hefði verið miðað við fimmfaldar ráðstöfunartekjur hefði það varðar 14% lánveitinga það sama ár.
Seðlabankinn gæti sett ofangreindar takmarkanir á núna í dag en frumvarpinu væri ætlað að gera ofangreind gildi, fimmfaldar árlega ráðstöfunartekjur og 25% af greiðslubyrði, að neðstu mörkum hlutfalls láns- eða greiðslubyrði miðað við tekjur. Þá gæti seðlabankinn ekki skert lánveitingar frekar en það.