Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað landsráð sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu.
Einnig verður landsráðið samráðsvettvangur á þessu sviði með virku samráði, til dæmis við sjúklinga, sjúklingasamtök, fagfélög og aðra hagsmunaaðila og menntastofnanir sem koma að menntun heilbrigðisstarfsfólks. Stofnun landsráðsins tengist einnig markmiðum heilbrigðisstefnu á þessu sviði. Fyrirhugað er að ráðið skili ráðherra ár hvert tillögum að aðgerðaráætlun um aðgerðir í þágu mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, að því er segir í tilkynningu.
Ákvörðun um skipun landsráðsins tengist meginefni heilbrigðisþings heilbrigðisráðherra árið 2020 þar sem mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu var meginumfjöllunarefnið. Ráðherra kynnti þar áform sín um að koma á fót landsráði um þetta efni, enda væru áskoranir varðandi mönnun þessarar mikilvægu þjónustu miklar og ljóst að þær verði viðvarandi viðfangsefni í framtíðinni.
„Við þurfum að styrkja og efla menntun heilbrigðisstarfsfólks, bæta starfsumhverfi þess, vinna að tryggri mönnun heilbrigðiskerfisins og efla vísindi og nýsköpun, og í ljósi heimsfaraldurs og áhrifa faraldursins þurfum við mögulega að nálgast það markmið með nýjum leiðum“ sagði ráðherra m.a. þegar hún ávarpaði heilbrigðisþingið 27. nóvember síðastliðinn.
Um 600 manns fylgdust með þinginu í beinu streymi og fjölmargir tóku virkan þátt, með fyrirspurnum og athugasemdum.