Betur fór en á horfðist þegar rafmagnslína losnaði af staur í friðlandinu í Vatnsfirði, eldur kviknaði í staurnum og síðan í gróðri. Vegfarendur og bændur á svæðinu sáu þegar þetta gerðist og tókst þeim að slökka eldinn að mestu og afstýra því að hann bærist í kjarrlendi í um 500 metra fjarlægð.
Að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra á Patreksfirði, hefði eldurinn getað orðið illviðráðanlegur ef hann hefði komist í kjarrið. Þegar slökkviliðið kom á staðinn logaði enn eldur í staurnum og neistaði úr rafmagnslínunni en eftir að Orkubú Vestfjarða tók strauminn af línunni var hægt að saga staurinn niður. Slökkvilið var enn á svæðinu á sjötta tímanum til að fullvissa sig um að engin glóð væri í mosanum, grafa upp jarðveg og bleyta í honum.
Gróður á svæðinu er mjög þurr eftir langvarandi þurrka og einnig var þar hvasst í dag. Davíð segir að sést hafi til rigningar í fjarska en síðan hvarf hún á braut.
Slökkviliðið var um 50 mínútur á leiðinni frá Patreksfirði eftir að útkallið barst fyrr í dag.