Þingvellir vakna til lífsins

Framkvæmdum við Þingvelli miðar vel áfram. Tvær nýjar klósettaðstöður eru …
Framkvæmdum við Þingvelli miðar vel áfram. Tvær nýjar klósettaðstöður eru nú tilbúnar. Eggert Jóhannesson

Framkvæmdir á Þingvöllum eru komnar langt á leið en nýr stígur í gegnum Búðarsvæðið stendur nú klár auk þess sem tvö af þremur klósettum sem bæta á við núverandi aðstöðu eru tilbúin.

Torfi Stefán Jónsson, sagnfræðingur og verkefnastjóri í Þingvallaþjóðgarði, kveðst spenntur fyrir komandi sumri í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, enda mörg ný spennandi verkefni að komast á laggirnar. Má þar meðal annars nefna Búðarstíg sem er ný viðbót við gönguleiðirnar sem hægt er að finna á Þingvöllum.

Búðarstígur liggur í gegnum sögufrægt svæði

Búðarstígur liggur í gegnum eitt helsta fornleifasvæðið á staðnum þar sem bróðurparturinn af búðum þeirra sem sóttu Alþingi til forna stóðu.

„Það eru fornleifar undir og ekki hægt að reka neitt niður þannig það eru lagðar þökur, járnplötur og svo eru notaðir gamlir rafmagnsstaurar, þeir sagaðir niður og þessu er bara tyllt á. Þannig að stígurinn hann í sjálfu sér flýtur og þetta er ekki rekið niður. Þetta er eins afturkræft og mögulegt er.“

Búðarstígur situr ofan á þökum, járnplötum og gömlum rafmagnsstaurum.
Búðarstígur situr ofan á þökum, járnplötum og gömlum rafmagnsstaurum. Eggert Jóhannesson

Þar sem nýja gönguleiðin liggur nú var áður drullugur moldarstígur, að sögn Torfa, svo nýja viðbótin er mikið fagnaðarefni enda býðst gestum nú tækifæri til þess að skoða þessar sögulegu minjar þurrfætis og frá betra sjónarhorni. „Núna erum við búin að lyfta þessu upp og fyrir vikið sjá allir gestir þessar búðartóftir mun betur.”

Framkvæmdum við Þingvelli miðar vel áfram en mögulegt var að ráðast í þessi verkefni fyrr en áætlað var vegna fjármagns sem þeim barst úr innviðasjóði, að sögn Torfa. „Klósettin eru tilbúin á Valhöll, það er eitt nú þegar komið í notkun, við erum bara rétt að bíða eftir því að geta sett annað í notkun þannig að tvö [klósett] af þremur eru tilbúin.“ Framkvæmdum er þó hvergi nærri lokið enda alltaf hægt að betrumbæta og stendur nú til að koma á fót nýju heildarskipulagi fyrir gamla Valhallarstæðið sem Torfi segir vera „barn síns tíma“.

Torfi Stefán Jónsson, sagnfræðingur og verkefnastjóri Þingvallaþjóðgarðs.
Torfi Stefán Jónsson, sagnfræðingur og verkefnastjóri Þingvallaþjóðgarðs. Eggert Jóhannesson

Vilja að sagan komist til skila

Fræðsluskiltum og margmiðlunarupplifun verður seinna komið upp við Búðarstíg en markmiðið er að gestir geti horft á söguheiminn rísa upp fyrir augum sér, hvort sem það verður í gegnum staðbundin tæki eða síma fólks.

Torfi segir að auðvelt sé að ímynda sér að fyrir rúmlega 1.000 árum hafi fjöldinn allur af búðum verið á þessu svæði, bæði ef miðað er við lýsingar úr Íslendingasögunum og einnig við rústirnar sjálfar.

„Það erfiða í þessu er að náttúran er eitthvað sem þú sérð en sagan hún er aftur á móti horfin. Við viljum reyna að koma henni á einhvern hátt lifandi til skila. Svo vonum við bara að það gangi upp. [...] Þessi saga er náttúrulega mjög merkileg en hún er ástæðan fyrir því að við erum á UNESCO-heimsminjalistanum, frá 2004. Það er út af menningarminjunum og áhrifum þeirra inn í samfélagið. Þetta samspil þjóðar og bókmennta.“

Búðarstígur liggur í gegnum eitt helsta fornleifasvæðið á Þingvöllum
Búðarstígur liggur í gegnum eitt helsta fornleifasvæðið á Þingvöllum Eggert Jóhannesson

Ferðamönnum fjölgar rólega

Torfi segir ferðamönnum stöðugt fjölga en bílaleigubílar verða sífellt meira áberandi þótt rútur séu enn fremur fátíðar. Geta þá starfsmenn á Þingvöllum einnig fylgst með fjölda ferðamanna með teljurum sem búið er að koma fyrir í Almannagjá og við Öxarárfoss en samkvæmt upplýsingum frá þeim er hægur rísandi á fjölda ferðalanga og munar um marga tugi þúsunda ef borið er saman við tölur frá maí 2019.

Flestir ferðamenn koma nú frá Bandaríkjunum enda er stór hluti þeirrar þjóðar nú orðinn fullbólusettur og geta þeir því ferðast til Íslands án þess að sæta fimm daga sóttkví líkt og aðrir. Torfi segist glaður að heyra hve ánægðir ferðamennirnir eru með skipulagið við komuna til Íslands, allt frá því hvernig gekk að bóka miðann að sýnatökunni við komuna til landsins. Kveðst hann þó einnig hálfhissa yfir þessu hrósi enda telur hann Íslendinga seint geta hreykt sér af því að vera skipulögð þjóð.

Auk erlendra ferðamanna hafa Íslendingar einnig verið duglegir að láta sjá sig í góða veðrinu og um helgar. Talsverð umferð hefur verið undanfarna daga en að sögn Torfa eru landsmenn duglegir að skoða þingstaðinn og kíkja á sýninguna uppi á gestastofunni þegar þeir eru í fríi.

Guðni Ágústsson leiðir fyrstu fimmtudagsgönguna í sumar.
Guðni Ágústsson leiðir fyrstu fimmtudagsgönguna í sumar. Ómar Óskarsson

Fjör og fræðsla í sumar

Mikið verður um að vera á Þingvöllum í sumar og hvetur Torfi fólk til að kynna sér dagskrána á facebook-síðu þjóðgarðsins og einnig heimasíðu hans. Verða þá haldnar fimmtudagsgöngur í júní og júlí þar sem gestafyrirlesarar mæta en Guðni Ágústsson mun leiða fyrstu gönguna 24. júní.

Eins verða landverðir með þriggja tíma göngur á laugardögum klukkan eitt þar sem farið verður inn í hraunið og eyðibýli skoðuð. Að sögn Torfa er um að ræða mjög áhugaverða sögu og náttúru og því um að gera að mæta og kynna sér það. Göngurnar verða fríar og opnar öllum en hægt verður að nálgast nánari dagskrá í byrjun júní.

Torfi endar viðtalið bjartsýnn fyrir sumrinu „Okkur líst bara rosalega vel á sumarið 2021. Bæði erum við að sjá fjölgun gesta og það verður frábært veður. Við erum að sjá rosa gjöfult fuglalíf í þjóðgarðinum og það er allt einhvern veginn að vakna til lífsins, við erum að vakna til lífsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka