„Ég er ekki sjúkdómurinn, hann þarf ekki að skilgreina mig,“ sagði Ástrós Traustadóttir, dansari og danskennari, á stofnfundi samtakanna SÁTT, Samtök um átröskun og tengdar raskanir. Hún var meðal fimm kvenna sem deildu sínum reynslusögum af átröskun á fundinum.
Eins og mbl.is greindi frá var fyrsti fundur samtakanna haldinn í dag og meðal þeirra fyrirlesara sem tóku til máls voru Heiða Rut, frá átröskunarteymi Landspítalans, formaður samtaka um átraskanir í Svíþjóð og Styrkár Hallsson sálfræðingur.
„Við viljum gera átraskanir sýnilegri þannig að við getum dregið úr skömminni, sem er algengur fylgifiskur þess að glíma við átraskanir eða aðrar fíknir,“ sagði Elín Vigdís Guðmundsdóttir, formaður samtakanna. Með því benti hún á að reynslusögur hjálpi til við að opna á umræðuna og séu því mikilvægar.
„Það er erfitt að berjast fyrir lífi einhvers sem maður elskar ekki,“ sagði Sigríður Gísladóttir, verkefnastjóri hjá Geðhjálp, í reynslusögu sinni í baráttu við átröskun.
„Ég þurfti að móta hugsanamynstrið mitt upp á nýtt. Til að byrja með vaknar maður upp á morgnana og fyrsta hugsunin sem kemur upp er átröskunin, hægt og rólega verður hún svo önnur hugsunin og eftir langan tíma er hún ekki lengur til staðar.“ Þá bætti hún við að lykilatriðið í baráttu sinni hafi verið breytt viðhorf og hugarfar um sig sjálfa og mat.
Þær hugrökku konur sem deildu sínum reynslusögum á fundinum voru Sóley Hafsteinsdóttir, Ástrós Traustadóttir, Sigríður Gísladóttir, Eva Dögg Rúnarsdóttir og Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. Þær gagnrýndu margar hverjar þau úrræði sem standa til boða hér á landi og þann skort sem hefur verið á meðferðarúrræðum.
Sóley Hafsteinsdóttir, ein þeirra sem deildi sinni sögu, skrifaði opið bréf í febrúar 2020 til heilbrigðisráðherra um stöðu átröskunarteymisins. Ástæða skrifa hennar er að hún fékk nóg af aðgerðaleysi stjórnvalda og skorti á meðferðarúrræði átraskana á Íslandi.
„Eftir því sem ég best veit hefur staðan ekki batnað síðan þá,“ sagði hún.
„Það virðist oft vera eins og fólk haldi að geðsjúkdómar fari í sumarfrí og að það sé réttlætanlegt að loka heilu deildunum í tvo mánuði,“ sagði Sóley Hafsteinsdóttir, er hún gagnrýndi það að hafa þurft að bíða eftir nauðsynlegri meðferð við sinni átröskun vegna þess að átröskunarteymið hafi verið í sumarfríi.
„Geðsjúkdómar eru ekki árstíðabundnir, við verðum líka veik á sumrin.“
Fundinn má sjá í heild sinni hér.