Undanfarnar vikur hefur öflugt hæðarsvæði staðsett fyrir norðan og norðaustan okkur stjórnað veðrinu og haldið lægðum frá landinu en núna hefur hæðin gefið eftir og útlit fyrir nokkurn lægðagang næstu daga að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Lægð dagsins er búin að koma sér fyrir suðvestur af Reykjanesi og skil frá henni liggja yfir suðvesturhorn landsins. Nokkur vindur fylgir þeim og gular veðurviðvaranir taka gildi um og upp úr hádegi á Suðurlandi, Faxaflóa og miðhálendinu.
Búast má við vindi að 20 m/s á þessum svæðum og því geta aðstæður verið varhugaverðar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, líkt og húsbílar eða hjólhýsi. Einhver rigning fylgir vindinum og því von á því að eitthvað blotni í gróðri og dragi úr eldhættu. Norðan til á landinu verður vindur á bilinu 8-15 m/s og að mestu bjart veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur í dag og næstu daga
Suðaustan 8-15 m/s en 15-20 sunnan og suðvestan til. Skýjað og víða dálítil rigning en bjartviðri á norðanverðu landinu.
Bætir í úrkomu á Suður- og Vesturlandi í nótt. Snýst í sunnan 8-15 með skúrum í fyrramálið en áfram bjart norðanlands. Vaxandi suðaustanátt með rigningu sunnan og vestan til annað kvöld.
Hiti 10 til 18 stig yfir daginn, hlýjast inn til landsins en heldur svalara austast.
Á laugardag:
Sunnan 8-13 m/s og víða dálítil væta en yfirleitt þurrt norðan til á landinu. Hiti 6 til 11 stig, en að 17 stigum fyrir norðan. Suðaustan 13-18 m/s og rigning sunnan- og vestanlands um kvöldið.
Á sunnudag:
Sunnan 8-13 m/s og rigning. Hiti 5 til 10 stig. Þurrt að kalla norðaustan til á landinu og hiti að 15 stigum.
Á mánudag:
Sunnan 8-13 m/s með skúrum, en þurru veðri um landið norðaustanvert. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Sunnan- og suðvestanátt og skúrir en úrkomulítið norðaustan til. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og bjartviðri en lítils háttar vætu vestan til.