„Ég harma það að Alþýðusambandið skuli leggjast gegn því að fólk hafi meira valfrelsi og geti haft meiri áhrif á sín lífeyrisréttindi en það hefur í dag. Þarna er ekki verið að semja um lakari réttindi en eru til staðar í dag, heldur aukið frelsi til að ráðstafa sínum lífeyri.“
Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) sem ásamt Elkem Ísland ætla að fara með ágreining um lífeyrismál fyrir Félagsdóm vegna andstöðu ASÍ við samningsatriði í nýgerðum kjarasamningi þeirra.
VLFA og Elkem sömdu um að félagsmenn VLFA gætu ráðstafað allt að 3,5% af iðgjaldi í lífeyrissjóð, annaðhvort í samtryggingu, tilgreinda séreign eða frjálsan lífeyrissparnað, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í frétt á vef VLFA kemur hins vegar fram að forseti ASÍ hafi „lagst gegn því að félagsmenn VLFA fái þetta aukna valfrelsi og lagt stein í götu þessa samkomulags á þeirri forsendu að það sé ASÍ sem fari með samningsumboðið um lífeyrismál en ekki Verkalýðsfélag Akraness“.