Greidd verða atkvæði um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu næstkomandi laugardag, 5. júní. Sveitarfélögin eru Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd, en sameiningarverkefnið hefur gengið undir nafninu Húnvetningur.
Greidd verða atkvæði í hverju sveitarfélagi fyrir sig og þarf meirihluta atkvæða í þeim öllum til að af sameiningu verði.
Alls eru 1.365 á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni; 650 á Blönduósi, 300 í Húnavatnshreppi, 345 í Sveitarfélaginu Skagaströnd og 70 í Skagabyggð, að því er segir í tilkynningu frá verkefnahópi um sameiningu. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni hunvetningur.is.
Sama dag verða greidd atkvæði um sameiningu sveitarfélaganna Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps í Suður-Þingeyjarsýslu og nefnist það verkefni Þingeyingur.