119 stúdentar brautskráðust frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði í dag, 28. maí. Nemendur brautskráðust af starfs-, félagsvísinda-, raunvísinda- og viðskipta- og hagfræðibraut en einnig af opinni námsbraut til stúdentsprófs. 35 af þessum nemendum útskrifuðust einnig af íþróttaafrekssviði skólans.
Dúx skólans var Óskar Atli Magnússon, raunvísindabraut, með 9,56 í meðaleinkunn og semídúx var Júlía Rós Auðunsdóttir, af viðskipta- og hagfræðibraut.
Þar að auki hlaut Óskar Atli verðlaun fyrir bestan árangur á raunvísindabraut frá Háskólanum í Reykjavík. Einnig hlaut hann styrk frá Rio Tinto fyrir góðan árangur í raungreinum, verðlaun frá stærðfræðifélaginu og viðurkenningu fyrir frábæran árangur í ensku og spænsku. Hann hlaut einnig viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar fyrir frábæran árangur á stúdentsprófi.
Fyrir sinn árangur fékk Júlía Rós styrk frá Góu. Hún hlaut einnig Menntaverðlaun Háskóla Íslands og viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í stærðfræði.
Óskar Atli og Júlía Rós fengu einnig viðurkenningu fyrir íþróttaiðkun sína en þau leika bæði knattspyrnu hjá FH.