Haraldi Gunnlaugssyni brá heldur í brún á leið sinni í vinnuna á fimmtudagsmorgun þegar hann sá flórgoðapar sem búið var að gera sér hreiður á suðaustanverðri bæjartjörninni í Ólafsfirði.
Afar sjaldgæft er að flórgoðapar verpi í byggð en að sögn Haraldar er þetta í fyrsta sinn sem vitað er til þess að fuglar af þessari tegund geri sér hreiður á tjörninni í Ólafsfirði. Segist hann jafnframt einungis vita af tveimur öðrum slíkum tilvikum hér á landi.
Fjölbreytt fuglalíf er nú við bæjartjörnina sem mögulega má rekja til þess hve hægt hefur vorað í sveitinni í kring og talsverðan snjó er enn að finna inni í dölunum þar sem fuglarnir eru vanir að halda sig. Þykir því líklegt að flórgoðaparið hafi leitað til byggða í skjól frá kuldanum. hmr@mbl.is