Heiðarskóli í Reykjanesbæ stóð uppi sem sigurvegar Skólahreystis í ár eftir harða keppni. Aðeins munaði hálfu stigi á fyrsta og öðru sætinu í kepninni en Laugalækjarskóli var í öðru sæti með 63,5 stig. Í þriðja sæti var Flóaskóli með 55 stig.
Sigurlið Heiðarskóla skipuðu Jana Falsdóttir og Kristófer Máni Önundarson (hraðaþraut), Heiðar Geir Hallsson (upphífingar og dýfur) og Emma Jónsdóttir (armbeygjur og hreystigreip).
Silfurlið Laugarlækjarskóla skipuðu María Helga Högnadóttir og Þórbergur Ernir Hlynsson (hraðaþraut), Tindur Eliasen (upphífingar og dýfur) og Svanhildur Nielsen Hlynsdóttir (armbeygjur og hreystigreip).
Bronslið Flóaskóla skipuðu Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Viðar Hrafn Victorsson (hraðaþraut), Sigurjón Reynisson (upphífingar og dýfur) og Erlín Katla Hansdóttir (armbeygjur og hreystigreip).
Tólf skólar öttu kappi í kvöld. Dalvíkurskóli, Grunnskóli austan Vatna, Holtaskóli, Lindaskóli, Flóaskóli, Laugalækjarskóli, Heiðarskóli, Varmahlíðarskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Hraunvallaskóli, Grunnskólinn á Hellu og Akurskóli.
Hvert Íslandsmet á eftir öðru var slegið í undankeppninni nú í vor. Iðunn Embla Njálsdóttir úr Réttarholtsskóla sló met í hreystigreip þegar hún hékk í 15 mínútur og 2 sekúndur. Daginn eftir sló Erlín Katla Hansdóttir úr Flóaskóla met hennar þegar hún hékk í 16 mínútur og 58 sekúndur.
María Helga Högnadóttir og Þórbergur Ernir Hlynsson úr Laugalækjaskóla tvíbættu Íslandsmetið í hraðaþrautinni. Fyrar bættu þau metið um þrjár sekúndur í undankeppninni þegar þau fóru í gegnum brautina á tveimur mínútum en í kvöld bættu þau það met um 8 sekúndur með því að fara brautina á 1 mínútu og 52 sekúndum.