Landsréttur þyngdi í gær dóm yfir manni fyrir brot gegn hjálparskyldu með því að láta ógert að koma barnsmóður sinni undir læknishendur er hún veiktist alvarlega af kókaíneitrun með þeim afleiðingum að hún lést.
Maðurinn, Kristján Markús Sívarsson, hafði í fyrra verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir brotið en saksóknari áfrýjaði og krafðist refsiþyngdar. Var fallist á þá kröfu og dæmdi Landsréttur hann í tólf mánaða fangelsi.
Héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að manninum „hefðu verið hinar lífshættulegu aðstæður augljósar“. Í stað þess að kalla eftir lækni eða sjúkrabíl hefði hann hins vegar látið sig hverfa af vettvangi.
Segir í dómi að slíkt beri vott um skeytingarleysi hans um líf og heilsu hinnar látnu. Þá kom fram í framburði réttarmeinafræðings að hugsanlega hefði mátt bjarga lífi konunnar hefði hún fengið viðeigandi læknisþjónustu í tæka tíð.
Var maðurinn því fundinn sekur um brot gegn 221. grein hegningarlaga sem kveður á um hjálparskyldu í lífsháska. Allt að tveggja ára fangelsi liggur við brotum gegn greininni.
Maðurinn á að baki nokkuð langan sakaferil og var í ljósi þess ekki talin ástæða til að skilorðsbinda dóminn.