Mannúðarkrísa í Grikklandi en einnig á Íslandi

Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka flóttafólks og hælisleitenda á …
Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi. Samtökin komu að skipulagningu mótmælafundarins. Ljósmynd/Samsett

Fjöldi fólks kom saman á Austurvelli í dag til þess að mótmæla meðferð íslenskra yfirvalda á flóttafólki hér á landi. Samtökin No Borders, Solaris og Refugees in Iceland stóðu fyrir fundinum. Í kröfugerð fundarins er skorað á stjórnvöld að hætta tafarlaust að senda flóttafólk úr landi til Grikklands, þar sem sannkölluð mannúðarkrísa ríkir í flóttamannabúðum. 

Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Minnst 14 hælisleitendur á götunni

Þá er því einnig mótmælt að minnst 14 hælisleitendur, margir hverjir frá Palestínu, voru sviptir öllum grunnréttindum sínum, sem Útlendingastofnun ber að gæta, vegna þess eins að þeir vildu ekki gangast undir kórónuveirupróf, enda án einkenna og engin grunur um smit. Slíkt próf er forsenda þess að brottvísun úr landi geti hafist. 

Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Stjórnvöld vita upp á sig sökina

Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi, segir að brottvísunum til Grikklands hafi verið hætt um stund vegna kórónuveirufaraldursins – það hafi stjórnvöldum þótt sýna mannúð. Sema bendir þó á að ástandið í flóttamannabúðum á Grikklandi sé verra en það sem þekktist áður en faraldurinn hófst.

„Þetta vita íslensk stjórnvöld,“ segir Sema Erla við mbl.is.

„Og þegar ég segi að aðstæðurnar séu slæmar í Grikklandi, þá meina ég að fólk hefur ekki húsnæði, hefur ekki atvinnuleyfi og getur þannig ekki átt fyrir mat handa sér og börnum sínum. Svo er gríðarlega mikið ofbeldi, sem flóttafólk stendur frammi fyrir, bæði af höndum almennings og yfirvalda. Þetta eru auðvitað bara aðstæður sem ekkert okkar á að geta sætt sig við.“

Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Aðstæður slæmar víða í Evrópu, líka á Íslandi

Sema segir að ekki séu aðeins aðstæður í Grikklandi slæmar heldur líka á Íslandi. Hér sé flóttafólk sent á götuna þegar það reynir að verjast brottvísunum til landa þar sem að þeim steðjar raunveruleg ógn. 

Tilefni fyrrgreinds mótmælafundar var enda að mótmæla viðhorfi stjórnvalda víða um Evrópu til flóttafólks. Upp undir klukkan 14 í dag gengu mótmælendur að danska sendiráðinu til marks um stuðning við flóttamenn þar í landi, sem margir hverjir verða sendir til Sýrlands á næstunni í kjölfar lagabreytinga danska þingsins. Í Sýrlandi hefur borgarastyrjöld geisað síðastliðinn áratug.

Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Sema gefur ekki mikið fyrir yfirlýsingar hinna fjölmörgu stjórnmálamanna sem segjast hafa mannúðarsjónarmið og frelsi einstaklingsins í hávegum. 

„Ég hafna auðvitað bara öllum yfirlýsingum um frelsi og mannúðarsjónarmið og að þau gildi ríki hér á landi, sérstaklega komandi frá þeim sem stýra þessum málaflokkum hér á landi. Þú nefnir að það sé mannúðarkrísa í Grikklandi, sem auðvitað er, en það er líka mannúðarkrísa hér á Íslandi. Hér eru allavega 14 einstaklingar á götunni vegna þess að yfirvöld eru búin að svipta þau húsnæði, matarpening og meira að segja heilbrigðisþjónustu. Sem þýðir að íslensk stjórnvöld eru búin að svipta þessa einstaklinga grunnréttindum þeirra, sem allir jarðarbúar eiga að njóta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka