Mikið var um útköll til lögreglu vegna ofsaveðurs sem gekk yfir sunnanvert landið í gærkvöldi og nótt. Trampólín, hjólhýsi og hlutir á byggingasvæðum voru meðal þess sem fuku í allar áttir og voru björgunarsveitir kallaðar út síðdegis en þær voru að störfum til klukkan 23. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Gul viðvörun var í gildi á Suðurlandi í gær, föstudag, og á Reykjanesskaga. Mestur mælist vindur við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall, 27,4 metrar á sekúndu.
Ellefu ökumenn á höfuðborgarsvæðinu voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis- eða vímuefna í nótt, en í dagbók lögreglu segir að allir gangur hafi verið á því hvort þessir ökumenn væru með ökuréttindi.
Maður var handtekinn í nótt í Vesturbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis og gistir nú fangaklefa.
Þá var annar maður handtekinn vegna innbrots í Breiðholti, en sá var mjög ölvaður og bíður hans skýrslutaka er rennur af honum.
Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi vegna ölvunar í miðborg Reykjavíkur í nótt og var hann vistaður í fangaklefa þar sem ekki tókst að koma honum heim til sín, en maðurinn var að sögn lögreglu „í engu ástandi til að vera úti á meðal fólks“.