Mótmælt á Austurvelli

Fundurinn hefst á Austurvelli klukkan 13.
Fundurinn hefst á Austurvelli klukkan 13. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Boðað hefur verið til mótmælafundar klukkan 13 í dag á Austurvelli til stuðnings flóttafólki á Íslandi. Samtökin No borders Iceland, Solaris og Refugees in Iceland standa fyrir fundinum og fyrir liggur kröfugerð þar sem biðlað er til stjórnvalda að hætta tafarlaust ómannúðlegri meðferð flóttafólks hér á landi.

Tilefni fundarins er einna helst sú ákvörðun Útlendingastofnunar að svipta 14 flóttamenn grunnþjónustu hér á landi fyrir það eitt að gangast ekki undir kórónuveirupróf. Slíkt próf er enda forsenda þess að hægt sé að hefja brottvísun héðan af landi og til Grikklands þar sem sannkölluð mannúðarkrísa ríkir í flóttamannabúðum.

Þannig hafa 14 flóttamenn verið á götunni og án allrar grunnþjónustu síðan 26. apríl.

Brottvísanir hafnar á ný 

Einnig er því mótmælt að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að hefja á ný brottvísanir hælisleitenda til Grikklands, eftir nokkurra mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Kröfur flóttafólks á Íslandi og stuðningsmanna þess eru:

  • Að þeir flóttamenn sem  hafa verið sviptir húsnæði, framfærslu, heilbrigðisþjónustu og annarri grundvallarþjónustu, sem Útlendingastofnun á að veita þeim, fái hana á nýjan leik, eins og segir í viðburðarlýsingu mótmælafundarins á Facebook.
  • Að öllum brottvísunum frá Íslandi til Grikklands verði hætt án tafar
  • Að íslensk yfirvöld láti af ómannúðlegri og útlendingafjandsamlegri stefnu sinni í garð fólks á flótta
  • Að yfirvöld allra evrópskra ríkja gangist við sameiginlegri ábyrgð á að gefa fólki sem flýr lífshættulegar aðstæður möguleika á mannsæmandi lífi, reisn og virðingu og stöðvi kerfisbundnar brottvísanir fólks á flótta umsvifalaust.

Dagskrá fundarins hefst klukkan 13 á Austurvelli og rétt fyrir klukkan 14 verður gengið að danska sendiráðinu. Þar verður flóttafólki í Danmörku sýnd samstaða vegna ákvörðunar þarlendra stjórnvalda um að hefja brottvísanir flóttafólks til Sýrlands, þar sem borgarastyrjöld hefur geisað í yfir áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka